Hannaði merki besta handboltaliðs Litháens – Viðtal

rafn02„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttabúningum og félagsmerkjum eða allt frá því að ég var sjálfur virkur í íþróttaiðkun,“ segir Rafn Gíslason íbúi í Þorlákshöfn sem hefur síðastliðin sex ár dundað sér við að hanna íþróttamerki- og búninga. Hafnarfréttir ræddu við Rafn á dögunum og vildu forvitnast meira um þetta áhugamál hans.

„Árið 2009 var ég komin í þá stöðu vegna veikinda að hverfa af vinnumarkaði og þurfti því í kjölfarið að finna mér eitthvað til að hafa fyrir stafni en mér hafði áskotnast  hönnunarforrit sem sonur minn útvegaði mér ásamt 900 síðna leiðbeininga bæklingi. Ég lá yfir þessu um tíma og lærði sjálfur með aðstoð leiðbeininganna að nota forritið og fór þá að fikra mig áfram með að hanna merki fyrir íþróttafélög og fyrirtæki.“

logo_rafn01
Þetta er hluti þeirra merkja Rafns sem eru í notkun í dag.

Sendi tillögur til íþróttafélaga
„Þegar ég taldi mig vera orðinn nægilega frambærilegan þá gerði ég nokkur merki sem ég sendi til íþróttafélaga til skoðunar. Móttökurnar voru að sjálfsögðu misjafnar en þó þannig að það hvatti mig til að halda áfram að þróa og læra betur á það sem ég var að fást við,“ segir Rafn um fyrstu merkin sem hann hannaði.

„Fyrstu merkin sem ég gerði voru fyrir Draupni á Akureyri og Knattspyrnufélag SÁÁ ásamt að gera merki fyrir Knattspyrnufélagið Skell, Markaregn og Hönd Mýdasar en þessi félög léku í utandeildinni í fótbolta. Fljótlega fór ég að setja merkin mín á Facebook sem varð það til þess að fleiri sáu hvað ég var að fást við. Stuttu síðar fékk ég fyrirspurn hvort ég gæti gert merki fyrir UMFG á Grundarfirði.“

dragunas01Hannaði merki fyrir stærsta handboltaliðið í Litháen
Rafn tók að sér að gera félagsmerki fyrir Stál-Úlf en það er félag skipað litháískum leikmönnum, búsettum hér á landi. „Tengiliður minn við Stál-úlf er Algirdas Slapikas og fljótlega eftir að ég gerði merki þeirra þá voru forystumenn félagsins staddir í Klaipedia í Litháen, heimabæ handboltaliðsins Zemaitijos Dragunas en nokkrir félagsmenn þeirra eru þaðan og höfðu leikið fyrir það félag. Forsvarsmönnum Dragunas leist vel á merkið sem ég gerði fyrir Stál Úlf og báðu þá að kanna hvort ég væri fáanlegur til að gera merki fyrir þá, sem og varð raunin.“

Til gamans má geta þess að Zemaitijos Dragunas eru margfaldir Litháískir meistarar í handbolta og hafa unnið efstu deild þar í landi undanfarin 4-5 árin og eru í úrslitum einnig í ár.

Búningahönnun heillaði líka
Rafn hefur einna helst verið að hanna merki en ári eftir að hann hóf að hanna þá var hann beðinn um að hanna íþróttabúninga. „Ég hef smátt og smátt verið að þróa þá vinnu og ná betur tökum á því. Ég fæst mest við að endurhanna merki en geri einnig ný merki ásamt því að hanna búninga af ýmsum tegundum og þá mest fyrir fótbolta og körfubolta.“

Endurhannaði öll merki í brasilísku úrvalsdeildinni
Rafn hefur verið í félagsskap við erlenda hönnuði á vefsíðu þar sem þeir setja inn búninga og merki frá sér ásamt því að keppa innbyrðis í hönnun. „Fljótlega eftir að ég hóf þátttöku á þessari síðu þá fékk ég beiðni frá einum af meðlimum síðunnar, Rafael Luis Azsevedo, sem er virtur íþróttafréttaritari í Brasilíu og starfar þar hjá einum virtasta íþróttanetfjölmiðli landsins. Hann fékk mig til að endurhanna öll merkin í úrvalseildinni í Brasilíu og fékk ég einungis 1 viku til að vinna verkið sem var í það knappasta en það tókst þó á tilsettum tíma.“

Hér má sjá brasilísku merkin sem Rafn gerði en merkin voru bara gerð til gamans og eru ekki í notkun í brasilíska fótboltanum.

aegir_rafn01
Hugmynd Rafns að merki og búningi Ægis.

„Einnig hef ég sett inn merki á síðu sem heitir DesignFootball.com. Fljótlega eftir að ég hóf að setja inn þar fór að koma áhugi frá aðilum erlendis sem föluðust eftir merkjum. Má þar nefna Carluke Thistle frá Skotlandi, Wear United frá Englandi, stuðningsmannaklúbb Dunfermline Athletic FC í Skotlandi, kvennaknattspyrnulið í Bandaríkjunum og Oxford Futsal Club frá Englandi, en þeir urðu enskir FA meistarar 19 ára og yngri á síðasta ári.“

thor_rafn01
Hugmynd Rafns að merki og búningi Þórs.

Rafn heldur úti mjög virkri Facebook-síðu þar sem hann setur inn þau merki og búninga sem hann er að hanna og hvetjum við lesendur til að skoða það sem hann hefur gert. Þess má geta að Rafn hefur að gamni sínu hannað ný merki og búninga fyrir UMF Þór og Knattspyrnufélagið Ægi hér í Þorlákshöfn og má sjá útkomunar hér í greininni.

 

Slóðin á Facebook-síðu Rafns: www.facebook.com/pages/RGislason-LOGO