Jónas Sigurðsson hlaut í gær Krókinn 2018, viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í útvarpshúsinu við Efstaleiti.
„Ég er virkilega þakklátur fyrir þetta og sé það sem mikla gæfu í mínu lífi að vera tónlistarmaður og eiga samtal við þjóðina í gegnum tónlistina,“ sagði Jónas þegar hann tók við viðurkenningunni ásamt hljómsveit sinni. Jónas hefur komið víða við á árinu og endaði árið með frábærri plötu, Milda hjartað, sem kom út í nóvember.
Til að fylgja eftir plötunni ferðaðist hann víða ásamt hljómsveitinni og byrjaði ferðalagið að sjálfsögðu á heimaslóðum í Þorlákshöfn. Þá fór sveitin einnig á Akranes, Siglufjörð, Akureyri, Hvolsvöll, Egilsstaði, Rif, Reykjavík og fleiri staði. Hljómsveitina skipa Arnar Gíslason trommari, Guðni Finnsson bassaleikari, Tómas Jónsson píanóleikari og Þorlákshafnarbúi og Ómar Guðjónsson gítarleikari.
„Árið var geggjað. Það var gaman hjá okkur. Það var ný plata og það er alltaf rosalega gaman að koma með nýja plötu,“ sagði Jónas í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 stuttu eftir afhendinguna.
„Það sem gerist þegar maður er tónlistarmaður þá gefur maður út plötu, spilar tónleika til að fylgja henni eftir og svona hægt og rólega er komið sama prógrammið sem hljómsveitin flytur, sama atriðið. Þá er ofboðslega gott að fara aftur í bílskúrinn, vinna og vinna, koma svo með nýja plötu og jafnvel nýjan vinkil.“
Aðspurður hvort hann væri hættur að vera kjaftfor á nýju plötunni sagði Jónas; „Ég reyni að vera kjaftfor en með milt hjarta. Er það ekki góð blanda? Nú er ég auðvitað karlmaður og karlmennska hefur verið mér hugleikin. karlemnnskan virðist oft snúast meira um það að standa upp á palli og rífast og skammast. Frekar en hafa mýkt. Ég hef síðustu ár hugsað mikið um þessa blöndu, til þess að vera heil manneskja þarf maður að getað verið þarna á milli. Þú þarft að eiga þennan styrk til að standa fyrir því sem þú trúir á en svo að eiga þessa mýkt að þora að lifa með opið hjarta.“