Það verður ævintýraleg stemning þegar Valgerður Guðnadóttir og Felix Bergsson koma á Hendur í höfn til þess að syngja lögin úr teiknimyndunum sunnudaginn 28. apríl kl. 15.
Þau eiga það sameiginlegt að hafa ljáð mörgum af þekktustu teiknimyndapersónunum raddir sínar og hafa því lengi verið fastagestir á heimilum landsmanna. Sem dæmi um karaktera sem hafa fengið að nota röddina hans Felix eru Aladdín, Viddi í Toy Story, Maggi Víglunds í Monsters, Inc. og fjölmargir fleiri. Valgerður hefur svo ljáð persónum eins og Pocahontas, Litlu hafmeyjunni, Mulan og miklu fleirum röddina sína.
Þeim til halds og trausts verður píanóleikarinn Vignir Stefánsson
Tónleikarnir eru að sjálfsögðu fyrir alla fjölskylduna og alveg víst að börn jafnt og fullorðnir munu njóta, því hver elskar ekki tónlistina úr þessum dásamlegu teiknimyndum!
Börnin munu ýmist geta setið með foreldrum sínum eða í kringum tónlistarfólkið á notalegum pullum.
Æskilegt er að gera ráð fyrir að mæta talsvert áður en tónleikarnir hefjast ef hugmyndin er að fá sér kökur og kaffi svo að hægt verði að afgreiða allt áður en tónleikarnir hefjast til að lágmarka truflun vegna hávaða sem fylgir því.
Miðaverð er 3000 kr. og á það við um miðaverð fyrir bæði börn og fullorðna. Miðasalan hefur farið vel af stað og það borgar sig að tryggja miðana á midi.is fyrr heldur en síðar.
Borðapantanir eru á hendurihofn@hendurihofn.is