Digiqole ad

Núvitundarkennsla í leikskólanum?

 Núvitundarkennsla í leikskólanum?
© Sergeyak | Stock Free Images

Á fundi fræðslunefndar 28. febrúar s.l. var lagt fram erindi starfsmanns leikskólans um tillögur að úrbótum á sviði snemmtækrar íhlutunar fyrir börn í vanda. Lúta tillögurnar m.a. að því að bæta við stöðu við báða skóla sveitarfélagsins sameiginlega, sem hefði það að markmiði að veita ráðgjöf, gera áætlanir og fylgja málum eftir, og að sinna jafnframt kennslu í jóga og núvitund á báðum skólastigum.

Skólastjórnendur greindu frá því hvernig þarfir skólanna væru á þessum tímapunkti og það að útfærsla á þessari góðu hugmynd gæti komið til framkvæmda, t.d. mögulega á þann veg að taka upp sérverkefni/verkefnastjórn innan a.m.k. leikskólans á þessu sviði.

Nefndin þakkaði erindið kærlega og fagnaði því að starfsmenn sveitarfélagsins sýndu með þessum hætti frumkvæði og nýsköpun í störfum sínum. Það var mat nefndarinnar að tillögurnar væru afskaplega jákvæðar og gætu sannarlega komið að gagni í starfi skólanna.

Málið fór svo áfram til bæjarráðs og var tekið fyrir á fundi þann 14. mars. Þá óskaði Leikskólinn Bergheimar eftir því að fá heimild til að ráða verkefnastjóra í 80% stöðu með áherslu á núvitund barna og fleira. Bæjarráð tók undir afstöðu fræðslunefndar og taldi erindið sannarlega jákvætt og að það gæti komið að gagni í starfi skólanna en gat hinsvegar ekki orðið við erindinu þar sem það rúmaðist ekki innan gildandi fjárhagsáætlunar.

Þetta vakti áhuga okkar og við ákváðum að fara aðeins betur ofan í saumana á því hvað núvitund væri og hvernig hún gæti komið að notum fyrir ung börn.

,,Það er í raun ekki flókið að koma inn núvitund í skólum en það sem þarf er vilji”

Í skýrslu sem segir frá tilraunaverkefni heilsuleikskólans Króks og Grunnskóla Grindavíkur þar sem markmiðið var að innleiða núvitund í leikskóla og  yngslu bekki grunnskólans með það að markmiði að efla tilfinningalegt jafnvægi, jákvæða félagslega hegðun og vellíðan bæði nemenda og kennara. Í verkefninu var lögð áhersla á að kenna börnum og kennurum núvitund með hugleiðslu og jógaæfingum.

Þar segir að sýnt hefur verið fram á að læsi á eigin tilfinningar og sjálfstjórn getur haft afgerandi áhrif á líðan, þroska og hæfileikann til að tileinka sér nám. Með því að nota núvitund læra börn að stoppa í smá stund, anda og skoða hvernig þeim líður á þessari stundu og hvað þau þurfa. Með núvitund fara þau af sjálfstýringunni og læra aðra hluti um lífið og taka þeim, eins og að ekki allir hlutir séu góðir og frábærir. Þau læra að veita hlutunum athygli og að fela ekki tilfinningar sínar heldur að skilja þær og leyfa þeim að vera. Sýnt hefur verið fram á að jóga og núvitund í skólastarfi sé góð leið til að viðhalda góðri andlegri og líkamlegri heilsu barna. Núvitund er góð leið til að hjálpa börnum líkamlega og andlega til að finna ró í skóla sem og daglegu lífi.

Ennfremur segir að með því að upplifa athygli, þolinmæði, traust, tilfinningar og sátt ung að aldri geta börn náð að móta sig að því að vera hér og nú sem hjálpar þeim að vaxa og dafna og leyfir þeim að vera þau sjálf. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðis-málastofnuninni eru geðraskanir algengustu sjúkdómar samfélagsins og mun einn af hverju fjórum greinast með eina eða fleiri tegundir geðraskanna einhvern tímann í lífinu. Skólar hafa góða möguleika á að taka þátt í núvitund barna og unglinga og er líklegt að það hafi áhrif á vellíðan, geðheilsu, getuna til að tileinka sér nám og jafnvel á líkamlega heilsu þeirra. Það er því í raun ekki flókið að koma inn núvitund í skólum en það sem þarf er vilji.

Við heyrðum í Dagný Erlendsdóttur, leikskólastjóra Bergheima og spurðum hana aðeins nánar út í málið.

Fyrst aðeins um leikskólann fyrir þau sem ekki þekkja til starfsins

,,Leikskólinn var byggður 1983 og elsti hlutinn var endurbættur 2018, einnig var byggt við hann 2014 og 1998 og hefur hann því tekið miklum breytingum á síðustu 20 árum. Í dag eru 94 börn í leikskólanum, 33 starfsmenn með öllum töldum, þ.á.m. ræstingu og eldhússtarfsfólki sem sér einnig um að elda fyrir grunnskólann. Af þessum 29 sem starfa með börnunum eru flestir með viðbótarmenntun við grunnskólapróf, ég er mjög ánægð með starfsfólkið og hvað það er hátt menntunarhlutfall. Það er líka gaman að segja frá því að hér er mjög hár starfsmannaaldur og voru t.d. tvær að fá gjöf fyrir að vera búnar að vinna í 20 ár í leikskólanum nú í vikunni. Það er þrjár búnar að fá svoleiðis viðurkenningu áður og tvær munu bætast við seinna á árinu.”

Aðspurð um hvernig þau sjái fyrir sér að kenna núvitund svarar Dagný

Dæmi um verkefni í Bergheimum sem hjálpar börnunum að átta sig á því sem þau eru að skynja í umhverfinu

,,Núvitund er það að njóta augnabliksins og með því að kenna núvitund er verið að hjálpa börnunum að læra inn á sjálfan sig. Það er draumurinn að verkefnastjórinn myndi taka öll börnin í litla jóga hópa og í þeim tímum væri verið að fara í jógaæfingar, læra að anda og hlusta, íhuga með sjálfum sér, hlusta á hjartsláttinn og fleira. Einn kennari var að útskrifast sem jógakennari og það væri gaman að virkja þann kennara meira í jóga með börnunu.”

Hver er ávinningurinn af því að kenna börnum núvitund á leikskólastigi?

,,Hann er að börnin læri á sjálfan sig, læri að róa hugann og upplifa ólíka hluti. Í hraða nútímans eiga börn oft erfitt með að slaka á og er þetta verkfæri sem börn geta notað. Það er gaman að sjá þau börn sem hafa verið að fara í svona jógastundir hvað þau ná að róa sig niður þegar þau verða æst.

Niðurstöður í fyrrnefndri skýrslu sýna að verkefnið hefur haft mikil áhrif á skólastarfið í heild sinni og vonast aðstandendur til þess að það muni hafa enn meiri áhrif til framtíðar. Kennarar hafa fengið tæki til að aðstoða börn hvort sem þau eiga við vanda vegna tilfinninga eða geðraskana að stríða eða ekki. Börn hafa einnig fengið tæki til að átta sig á að það er í lagi að upplifa allan skalann af tilfinningum og til að átta sig á hver þau eru og hvað þau vilja. Nú þegar hafa kennarar beggja skólanna upplifað meiri ró yfir börnum og að þau eru betur í stakk búin að jafna sig til dæmis eftir árekstra við önnur börn.

Af þessum skrifum má því ætla að hér sé til mikils að vinna fyrir börnin og ekki síður fyrir starfsfólkið og í allri þessari umræðu um vanlíðan ungs fólks er spennandi að vita hvort að þessi vakning fyrir núvitundarkennslu ungra barna muni stuðla að hamingju ungs fólks og fullorðna í framtíðinni.

Fyrir þá sem vilja kynna sér skýrsluna sem vitnað er í þá má lesa hana hér.

Við leyfum Dagnýju að eiga lokaorðin

,,Það er gaman að segja frá því hversu mikið og gott starf er unnið í Bergheimum. Það er verið á fullu í öllum námsþáttum, m.a. hreyfingu, læsi, listsköpun, tónlist, farið í vettvangsferðir og svo er verið að vinna í að fá næsta Grænmána svo eitthvað sér nefnt. Við tökum á móti mörgum hópum og það er alltaf gaman hvað að sjá hversu vel fólki líst á leikskólann hjá okkur. Hann er hreinn og hlýlegur, síðustu breytingar voru vel gerðar í sambandi við hlýleika, að hafa fallegar viðar innréttingar býr til meiri hlýleika heldur en kaldar plastinnréttingar. Það er gaman að fá hrósið frá gestum sem koma og ég sem leikskólastjóri er mjög stolt af mínu flotta starfsfólki”.

Kira Willey stofnandi Rockin’ Yoga skólans segir frá núvitund og gefur dæmi um æfingar