Breytt tímasetning á stórtónleikunum 13. apríl, We Are the Champions!

Við viljum fleiri ævintýrakörfur!

Eins og hver einasti Þorlákshafnarbúi og fleiri vita þá er körfuboltaliðið okkar að brillera þessa dagana og virkilega spennandi leikir framundan en samkvæmt heimasíðu KKÍ eru næstu þrír leikir Þórs 5., 9. og 13. apríl.

Á síðastnefndu dagsetningunni, þann 13. apríl, eru einmitt stórtónleikar Lúðrasveitar Þorlákshafnar fyrirhugaðir á heimavelli Þórs, í sjálfu Íþróttahúsinu. Þar sem leikurinn verður á útivelli skarast staðsetningin ekki en hinsvegar vill Lúðrasveitin koma í veg fyrir stress hjá tónleikagestum og hefur ákveðið að færa tónleikana fram um tvo tíma þannig að þeir munu hefjast til kl. 15:00.  Tónleikarnir yrðu afstaðnir í kringum 17:00 og allir hafa nægan tíma til að koma sér í Vesturbæinn á leikinn sem hefst kl. 20.

Lúðrasveitin vill þannig einnig vera viss um að Hemmi básúna (Hermann G. Jónsson) pabbi Halldórs Garðars geti komist klakklaust á pallana til að hvetja strákinn til dáða – við viljum fleiri ævintýrakörfur!

Lúðrasveitin lofar að blása krafti í Græna drekann og annað stuðningsfólk Þórsara

Það mætti halda að LÞ hefði vitað hvað í stefndi þegar efnisskrá
tónleikanna var valin fyrir nokkrum mánuðum. Tónlistin gæti ekki verið mikið meira við hæfi á þessum þriðja leik í undanúrslitunum, lög eins og Show Must Go On, Higher and higher, Killing in the name of með hljómsveitinni Rage Against the Machine, Kvaðning með Skálmöld og Fjöllin hafa vakað svo eitthvað sé nefnt. Og ekki nóg með að þetta séu lög sem fá hvern mann til að vilja ganga á hæsta tind þá verða gestirnir hetjugítarleikarinn úr Skálmöld, Þráinn Árni Baldvinsson og stórsöngvarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson, hárin munu rísa!

https://www.instagram.com/p/BvsVETgA7_7/?utm_source=ig_web_button_share_sheet
Þessi mynd var tekin á æfingu síðasta sunnudag

Það er líka sérlega skemmtilegt að segja frá því að Eyþór Ingi mun ekki aðeins syngja heldur plataði Lúðrasveitin hann til að vera líka í hlutverki kynnis á tónleikunum og það vita þeir sem til hans þekkja að formlegheitin eru ekki að þvælast fyrir honum.

Þetta stefnir í sögulegan dag í Þorlákshöfn, stórtónleikar og svo beint á stórleik!

Miðasalan er á midi.is og í Kompunni.
Fyrir þau sem ekki komast 13. apríl er rétt að minna á að Brassrokk tónleikarnir verða líka í Seljakirkju miðvikudagskvöldið 10. apríl kl. 20