Á bæjarstjórnarfundi 4. júní lá fyrir beiðni um umsögn á endurnýjun starfsleyfis fiskþurrkunarinnar Fiskmarks ehf. Eftirfarandi bókun er tekin úr fundargerð:
Bæjarstjórn Ölfuss ítrekar þá umsögn sem ítrekað hefur komið fram og lýsir furðu og undrun á vangetu stjórnvaldsins Heilbrigðiseftirlits Suðurlands til að tryggja íbúum sveitarfélagsins viðunandi vernd fyrir þeirri mengun sem stafar frá starfsemi fyrirtækisins.
Bent er á að í umsögn Sveitarfélagsins Ölfuss um starfleyfisskilyrði fiskþurrkunarinnar Fiskmarks ehf. frá 2016 komu fram ítarlegar forsendur þess að sveitarfélagið lagðist gegn því að leyfið yrði veitt til fjögurra ára. Nú um þremur árum síðar eiga öll sömu rök við.
Bæjarstjórn vill vekja athygli heilbrigðiseftirlitsins á því að í tilgreindri umsögn frá 2016 (dagsettri 01.10.2016) sagði „Ekki skal koma til álita að framlengja starfsleyfið að tveimur árum liðnum.“
Þá er einnig bent á að í útgefnu starfsleyfi fyrirtækisins er skýrt kveðið á um að gildistími þess skuli nýttur til að undirbúa flutning fyrirtækisins á nýtt skipulagssvæði sem sveitarfélagið hefur útbúið sérstaklega fyrir fyrirtæki í lyktmengandi starfsemi.
Skemmst er frá því að segja að frá útgáfu starfsleyfisins síðastliðið haust og til dagsins í dag hefur fyrirtækið ekki sent eitt einasta erindi þess efnis á sveitarfélagið.
Bæjarstjórn lýsir furðu og undrun á því skeytingarleysi sem íbúum er sýndur í máli þessu. Fyrir liggja gögn frá HSL sem sýna að í hundruði skipta, árum saman, hafa íbúar kvartað formlega undan lyktarmengun frá tilgreindri starfsemi.
Ætla má að þar sé einungis um toppinn á óánægjuísjakanum að ræða. Slíkar kvartanir tekur sveitarfélagið alvarlega enda um hollustuhætti og búsetugæði að ræða. Eðlilegt er að HSL geri slíkt hið sama.
Frestur til að senda inn athugasemdir rennur út á morgun, 6. júní, en hægt er að gera það með því að senda póst merktan „Athugasemd vegna starfsleyfis Fiskmarks ehf.“ á hsl@hsl.is