Fimmtudagurinn 8. ágúst fór vel fram í Hamingjunni við hafið þar sem má segja að eitthvað hafi verið fyrir alla. Kósý lautarferð í brakandi blíðu í Skrúðgarðinum, sundlaugarpartý fyrir börn og svo unglinga, heldriborgara fjör á 9unni með samsöng, grilli og harmónikkuballi og svo rokkarinn Stebbi Jak ásamt Andra Ívars á Hendur í höfn. Hér má sjá skemmtilegt video sem sýnir brot frá ýmsum viðburðum.
Í dag, föstudag, náum við ákveðnum hápunkti á (ókeypis) stórtónleikum í Skrúðgarðinum þar sem fram koma No sleep, Daði Freyr, GDRN og Baggalútur ásamt leynigest.
Þessi hápunktur heldur sér langt fram á sunnudag með spennandi dagskrá fyrir alla fjölskylduna um helgina. Förum aðeins yfir dagskráliðina í Hamingjunni í dag.
POP UP gallerí í gömlu bræðslunni
Það eru ótrúlegir hlutir að gerast í gömlu bræðslunni þar sem hverfin hafa verið að stilla upp sínum tjöldum og einnig er þar að taka á sig mynd svo kallað POP UP gallerí. Það eru 6 listamenn með tengingu á Suðurlandið sem eru þar að koma sér fyrir með sína list sem verður bæði til sýnis og sölu. POP UP galleríið er talsvert ólíkt þessum hefðbundnu mörkuðum og hér á svo sannarlega við að sjón er sögu ríkari.
Sápusprell á skólalóðinni
Á skólalóðinni verður án efa mikið fjör kl. 16 í dag þegar krökkum 16 ára og eldri gefst kostur á að spila sápubolta og einnig verður sápurennibraut fyrir allan aldur en tekið skal fram að börn eru á ábyrgð foreldra. Ungmennaráðið heldur utan um sápusprellið.
Á skólalóðinni verður einnig veltibíll í boði Sjóvá, slökkviliðsbíll frá brunavörnum Árnessýslu og lögreglan mætir einnig með bíl ef ekkert kemur upp á hjá þeim sem gæti komið í veg fyrir það.
Stórtónleikar í Skrúðgarðinum
Eins og margir hafa rekið augun í þá er að rísa heljarinnar svið í Skrúðgarðinum og margir hafa spurt sig hvort að Ed Sheeran verði bara í Þorlákshöfn eftir allt saman! En um er að ræða samstarfsaðila í Exton sem þarna eru að koma sér fyrir og mega tónleikagestir búast við alvöru stórtónleikum með tilheyrandi ljósasýningu.
Fyrstir á svið verða strákarnir okkar í hljómsveitinni No Sleep og hefja þeir leik stundvíslega kl. 20. Það má reikna með að Þorlákshafnarbúar styðji vel við sína stráka, sem eru að spila í fyrsta sinn á sviði af þessari stærðargráðu og mæti tímanlega til að klappa vel og taka fagnandi á móti þessari frábæru hljómsveit.
Á eftir No Sleep stígur Daði Freyr á svið, þar á eftir hin margverðlaunaða GDRN og svo endar Baggalútur þetta ásamt leynigest!
Eftir að dagskrá lýkur í Skrúðgarðinum mun körfuknattleiksdeild Þórs vera með trúbbaball í Versölum þar sem Biggi Sævars spilar, hammarar verða grillaðir og pottþétt dansað fram á nótt.