Íbúar við Sunnubraut og Mánabraut í Þorlákshöfn eru orðnir langþreyttir á hávaða frá starfsemi Jarðefnaiðnaðar á ókristilegum tímum en fyrirtækið er í um 300 metra loftlínu frá umræddum götum.
Bréf frá íbúum Sunnubrautar og Mánabrautar var sent á bæjarstjórn Ölfuss þar sem þeir óska eftir því að ekki sé starfsemi hjá Jarðefnaiðnaði ehf. frá klukkan 23:00-08:00. Íbúarnir segja mikinn hávaða berast frá fyrirtækinu á þessum tíma og af því hlýst töluvert ónæði. Frá þessu er greint í bókun bæjarráðs Ölfuss.
Bæjarráð vísar erindinu til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands en tekur þó undir áhyggjur íbúa og lítur á það sem „óásættanlegt að starfsemi fyrirtækja í námunda við íbúabyggð valdi truflunum sem þeim sem lýst er í erindinu.“
„Eftirlit með starfsleyfi hvað hávaðamengun varðar er hins vegar ekki á verksviði sveitarfélagsins heldur Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.“