Þórsmerkurferð í boði Kiwanisklúbbsins Ölvers

Þriðjudaginn 3. september sl. fóru nemendur 8.-10. bekkjar Grunnskólans í Þorlákshöfn í ógleymanlega Þórsmerkurferð, sem hafði reyndar átt sér nokkurn aðdraganda.

Aðdragandi
Síðastliðinn vetur komu fulltrúar Kiwanisklúbbsins Ölvers að máli við skólastjórnendur og óskuðu eftir að fá að koma að fræðslu- og forvarnarmálum unglinanna í skólanum. Til verkefnisins vildu þeir verja ágóða af svokölluðu skókassaverkefni – en það verkefni er unnið í samstarfi við jólasveinana sem kaupa varning af Kiwanismönnum til að setja í skóinn hjá þægum börnum á aðventunni.

Ákveðið var að stefna að því að fara með unglingana í Þórsmörk a.m.k. annað hvert ár og gera úr ferðinni sameiginlega náttúruupplifun og fræðslu um landið en ekki síður að styrkja vinabönd og efla hópinn á jákvæðan hátt.

Ferðadagur
Ekki vildi betur til en svo að daginn sem fara átti af stað var afar slæmt veður. Fyrsta haustlægðin gekk yfir landið og ákveðið var að fresta um nokkra daga. Ákveðið var með sólarhrings fyrirvara að fara áðurnefndan þriðjudag og það er skemmst frá því að segja að þó við hefðum pantað veðrið hjá veðurguðunum hefðum við ekki getað hitt á betri dag. Það var hlýtt, sólin skein og inni í Þórsmörk var blankalogn og blíða.

Tvær rútur með alvana Kiwanismenn undir stýri, þá Vigni og Þráin, óku af stað um kl. 8:30 eftir að boðið hafði verið upp á hafragraut og brauð í skólanum. Á Selfossi kom fyrrum nemandi skólans og Þorlákshafnarbúinn Bjarni Hannesson leiðsögumaður upp í aðra rútuna og sagði ferðalöngunum frá öllu því sem fyrir augu bar á leiðinni. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt, en Bjarni var svo með sams konar leiðsögn í hinni rútunni á leiðinni til baka. Stoppað var við Gígjökul á leiðinni innúr og jarðfræði svæðisins rædd en við gosið í Eyjafjallajökli 2010 urðu afar miklar breytingar umhverfinu á þessum slóðum. Á leiðinni þurfti líka að fara yfir nokkrar ár og sprænur og var það mikil upplifun fyrir suma farþegana! Þegar inn í Bása var komið buðu Kiwanismenn upp á samlokur og safa, enda komið hádegi. Eftir hádegissnarlið var farið í stuttan ratleik í Básum þar sem reyndi á þekkingu á gróðri og smádýrum. Að því loknu var haldið í göngu dagsins. Nemendur og kennarar gengu þá hver á sínum hraða úr Básum inn í Langadal, þar sem fara þurfti yfir Krossá á göngubrú. Í Langadal skiptum við liði; flestir gengu á Valahnjúk en þeir sem ekki treystu sér til þess gengu áleiðis yfir í Húsadal, að hellinum Snorraríki. Báðir hópar stóðu sig vel og voru allir yfir sig heillaðir af náttúrufegurðinni sem flestir krakkarnir voru að upplifa í fyrsta sinn á þessum stað.

Þegar hóparnir höfðu skilað sér til baka í Bása, um kl. 16 voru Kiwanismenn tilbúnir með stórveislu. Grilluð lambalæri og alls kyns meðlæti sem féll svo sannarlega í kramið hjá þreyttum og svöngum göngugörpum. Ásamt áðurnefndum bílstjórum höfðu þeir Þór, Karl Sigmar, Óli Guðmunds og Þórarinn undirbúið veislumat fyrir 70 manns og það var sko allt upp á tíu!

Um fimmleytið var haldið heim á leið eftir stórkostlegan dag í Þórsmörk, sem sannarlega skartaði sínu fegursta þennan haustdag. Ferðin var mikil upplifun fyrir alla og tilgangi hennar sannarlega náð.

Nemendur og starfsfólk skólans þakka af alhug Kiwanisklúbbnum fyrir frábæra ferð. Sá ótrúlegi velvilji sem endurspeglast í þessu framtaki er okkur mikils virði og á vonandi eftir að verða öllum ferðalöngum dýrmæt minning um góða samveru á einum fallegasta stað á landinu.

Skólastjórnendur, starfsfólk og nemendur Grunnskólans í Þorlákshöfn