Kröfu Fiskmark hafnað – starfsleyfi rennur út um áramótin

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu Fiskmark um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurlands um að veita fyrirtækinu starfsleyfi fyrir heitloftsþurrkun fiskafurða og pökkun til sex mánaða í stað 12 ára.

Starfsleyfi Fiskmark mun því renna út um næstu mánaðamót en í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins, með þessu 6 mánaða starfsleyfi, kom fram að fyrirtækinu sé „þar með veittur frestur til að ganga frá stöðvun rekstursins að Hafnarskeiði 21, enda telur nefndin ekki fært að ná markmiðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með því að minnka framleiðslumagn og/eða gera frekari breytingar á starfsleyfisskilyrðum.“

Grétar Ingi Erlendsson

„Það er auðvitað aldrei gott þegar fyrirtæki fá ekki starfsleyfi en það er ljóst að það er stefna sveitarfélagsins að færa lyktarmengandi starfsemi eins og t.d. hausaþurrkun út úr Þorlákshöfn. Í því ljósi má benda á að sérstakt iðnaðarsvæði hefur verið skipulagt vestan af bænum sem ætlað er t.d. fyrir svona starfsemi. Lyktarmengandi starfsemi hefur um árabil haft neikvæð áhrif á lífsgæði í Þorlákshöfn og sjáum við fram á að með þessari ákvörðun er ekki einungis verið að bæta búsetugæði þeirra íbúa sem hér búa heldur mun þetta einnig bæta ímynd sveitarfélagsins og auka eftirspurn af húsnæði hér enn frekar enn nú er“ sagði Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs í samtali við Hafnarfréttir.

Hér má lesa úrskurðinn í heild sinni: http://uua.is/urleits/68-2019-fiskmark/