Ölfusingur vikunnar er Brynja Eldon sem hefur síðustu ár, ásamt Hrafnhildi Árnadóttur, tekist að draga Þorlákshafnarbúa út að plokka á stóra plokkdeginum. Um nýliðna helgi mátti sjá fjölmarga fara um með ruslapoka og leggja sitt af mörkum til að minnka ruslið sem sannarlega nóg er af. Ég spurði Brynju hvernig þetta byrjaði:
„Þetta byrjaði þannig að ég var að pósta inn myndum á facebook af ferðum mínum um bæinn að týna rusl og hvetja aðra til þess sama. Hrafnhildur tók eftir þessu og hafði samband við mig og spurði hvort ég væri ekki til í að taka þátt með henni í að skipuleggja stóra plokkdaginn í Þorlákshöfn. Ég sagði strax já. Fyrsta árið vorum við rosalega stressaðar að við fengjum enga með okkur í þetta verkefni en svo þegar dagurinn rann upp þá voru það um 50 manns sem tóku þátt með okkur og gerðu heldur betur kraftaverk.
Þar með var boltinn farinn að rúlla og við ræddum reglulega um hvað mætti betur fara í umhverfismálum hér í bæ. Ég aðstoðaði hana við að starta taupokastöðinni í búðinni í samstarfi við VISS. Við ræddum líka um hvað við gætum gert til að minnka ruslið sem væri að fjúka um bæinn og þá kom hugmynd um að fá sveitafélagið með í að skaffa fólki einhversonar teygju til að loka sorptunnunum og þar af leiðandi minnka líkurnar á að þær myndu tæmast ef þær færu á hliðina. Hrafnhildur lagði þetta fyrir á fundi hjá bænum og var þetta samþykkt.
Allt sem við höfum unnið saman hefur gengið vonum framar en það er margt sem má gera enn betur. Þannig að samstarf okkar Hrafnhildar sannar að tvær húsmæður geta lyft grettistaki í mikilvægum málum eins og umhverfismálum.“
Fullt nafn:
Brynja Eldon Sigurðardóttir, Eldon nafnið kemur frá langafa mínum, Loga Eldon.
Aldur:
Ég verð fertug í nóvember
Fjölskylduhagir:
Ég á risastóra fjölskyldu
Starf:
Heimavinnandi listakona og hestakona.
Hvað ertu búin að búa í Ölfusi í langan tíma?
Flutti hingað úr Reykjavík vorið 2015.
Hver er uppáhalds maturinn þinn?
Minn allra mesti uppáhaldsmatur er íslenska kjötsúpan, ég geri hana eftir fjölskylduuppskrift frá mömmu og ömmu.
Áttu þér uppáhalds bók, hver er hún?
Ég les sjaldan bækur, ég er frekar í því að dunda mér við að teikna, mála, smíða eða taka ljósmyndir. Svo get ég gleymt mér í hesthúsinu svo tímum saman eða útí í garði að vesenast eitthvað.
Hvaða kvikmynd getur þú horft á aftur og aftur?
Stellu í orlofi og Sódómu.
Hvað hlustar þú mest á?
Ég hlusta alla daga á tónlist og þá mest á íslenska tónlist, gamla og nýja. Ég syng mikið með og kann ógrynni af textum.
Hver er þinn uppáhaldsstaður í Ölfusi?
Ströndin algjört uppáhald og svo hesthúsið.
Hvernig hressir þú þig við þegar þess þarf?
Hlusta á tónlist í botni og syng með.
Hver er þín helsta fyrirmynd?
Ég sækist í að horfa á kosti fólks og það getur verið mér sem fyrirmyndir á svo margan hátt, þannig að það er erfitt að benda á eina manneskju.
Hvaða lag fær þig til að dansa?
Dettur ekkert ákveðið lag í hug en íslensk sveitaballatónlist hristir vel upp í mér og ´90´s danstónlist.
Hefur þú grátið af gleði? Ef svo, hvað aðstæður kölluðu fram gleðitárin?
Ég man ekki eftir neinu atviki en mestu gleðistundir lífsins er þegar ég átti börnin mín þrjú.
Hvað elskar þú við Ölfus?
Umhverfið, náungakærleikann, afslappað umhverfi og að gera haft hestana svona nálægt heimilinu.
Hvað myndir þú vilja sjá í Ölfusi sem ekki er hér nú þegar?
Er bara mjög ánægð með allt hér í sveitafélaginu. Umhverfissinninn ég hlakka til að fá betra gámasvæði og mögulega lengri opnunartíma þar. Svo mætti flöskumóttakan vera opin 2x í viku.
Hver er uppáhalds æskuminningin þín?
Ferðirnar í sveitina með afa um helgar, aðallega í sauðburð og svo fjölskylduferðalög.
Hvert dreymir þig um að fara?
Mig dreymir um að komast til Ástralíu, eitthvað sem heillar mig við hana. Kannski of mikið gláp á Neighbours í gegnum árin.
Áttu þér uppáhalds mottó, eða einhver orð sem þú hefur í huga dags daglega?
“Þetta reddast” er svolítið málið en svo reyni ég að spara ekki brosið og vera hjálpsöm.
Hvað er framundan hjá þér?
Ef Víðir, Alma og Þórólfur leyfa þá verð ég með listasýningu undir stiganum á bóksafninu okkar í september. Ég er að vinna í því að skapa mér nafn í listinni og mig langar alltaf í meira nám því tengt. Sýningin er því stór liður í að láta fólk vita hvað í mér býr.
Eitthvað að lokum?
Takk fyrir að tilnefna mig sem Ölfusing vikunnar og takk fyrir Ölfusingar fyrir að taka þátt ár eftir ár í stóra plokkdeginum með mér.
Ef einhver er forvitinn um listsköpun mína þá kíkið þið á þessa síðu: https://www.facebook.com/brynjaeldons/