Helstu spurningar og svör
Bæjarstjórn Ölfuss tók fyrir á 281. fundi sínum þá tillögu að taka upp markvissar viðræður við Hjallastefnuna. Samhliða var samþykkt að málið yrði unnið í sem nánustu samstarfi við foreldra og starfsmenn. Vísast þar ekki eingöngu til lögboðins réttar til umsagnar heldur einnig til þess að stofnaður verði stýrihópur með aðkomu foreldra, starfsmanna Bergheima, fulltrúa stjórnsýslu og fulltrúum Hjalla. Allt gert í þeim tilgangi að gera góðan leikskóla enn betri á sem upplýstastan og gagnsæjastan máta.
Breið sátt var um málið sem samþykkt var með 6 atkvæðum en 1 sat hjá og því trúin á að fá sérfræðinga um rekstur leikskóla til liðs við okkar öflugu starfsmenn sterk innan bæjarstjórnar.
Rétt er að taka fram að auðvitað var málið ekki að byrja á fyrrgreindum fundi bæjarstjórnar. Hið rétta er að núverandi bæjarstjórn hefur rætt ýmsar leiðir til að bæta þjónustu í sveitarfélaginu. Ekki hvað síst er þar horft til þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Í upphafi þessa árs var byrjað að breyta þó nokkrum þáttum í því sem snýr að yngstu börnunum í samfélaginu. Teknar voru upp heimagreiðslur, stuðningur við rekstur dagmæðra aukinn, niðurgreiðsla á þjónustu dagmæðra aukin og fleira. Í framhaldi af þeirri vinnu var bæjarstjórn opin fyrir að leita leiða til að efla enn frekar þjónustu leikskólans Bergheima. Eitt af því sem til greina kom var að fela sérfróðari aðila en stjórnsýslu sveitarfélagsins daglegan rekstur og stuðning við krefjandi verkefni. Þegar bæjarstjórn bauðst kynningafundur frá Hjallstefnunni var það þegið. Í framhaldi af því var óskað eftir frekari gögnum. Mjög fljótlega lá fyrir að áhugi var til staðar hjá bæjarstjórn að skoða þennan möguleika enn frekar og þá með formlegum viðræðum. Því var málið tekið fyrir á fyrrgreindum fundi bæjarstjórnar. Strax var ákveðið að reyna að hafa óvissutíma sem minnstan fyrir foreldra og starfsmenn og veita þeim tafarlaust aðkomu að ferlinu.
Innan við klukkutíma eftir að bæjarstjórn samþykkti án mótatkvæða að láta reyna á þessa vegferð hafði verið fundað með starfsmönnum leikskólans. Innan við tveimur klukkutímum eftir bæjarstjórnarfundinn hafði foreldrum verið kynnt hver staðan væri. Innan við við þremur tímum eftir fundinn var búið að kynna öllum bæjarbúum hvað verið væri að skoða. Þessi háttur var hafður á til að draga úr óvissu.
Að beiðni bæjarstjórnar hóf Hjalli þegar samtöl einslega við starfsmenn og innan við sólarhring eftir að bæjarstjórn hóf vegferðina hafði Hjalli kynnt starf sitt í starfsmannaviðtölum og boðið öllum núverandi starfsmönnum að starfa áfram við leikskólann fari svo að samningar náist.
Það er rétt sem fram hefur komið að málið var unnið hratt á fyrstu metrum þess. Það var gert til að tryggja að óvissa starfsmanna með lífviðurværi sitt yrði sem styst og minnst. Þetta, eins og allar aðrar ákvarðanir, má gagnrýna og vera má að einhverjir telji að betra hefði verið að lengja óvissutímann til að málið bæri ekki svona brátt að, en þetta var ákvörðunin.
Degi eftir viðtöl við starfsmenn, þar sem öllum var boðin áframhaldandi vinna við leikskólann fari svo að samningar náist, fundaði Hjallastefnan með foreldrum. Það var gert til kynna foreldrum beint það starf sem þar er unnið.
Vonir standa til í samstarfi við foreldra og starfmenn verði hægt í öruggum og markvissum skrefum að hefja innleiðingu á nýrri og enn betri þjónustu svo fljótt sem verða má. Áður þarf að halda áfram samtalinu og eyða þeirri óvissu sem óhjákvæmilega hefur þegar skapast. Fórnarkostnaðurinn við að taka alla að borðinu og vinna málið opið frá fyrstu stundu er að enn eru ekki til svör við öllum spurningum. Það hversu hratt innleiðingin gengur veltur einmitt á því hversu hratt hægt veður að finna svör við þeim spurningum sem þegar er ósvarað og sannarlega þeim sem enn hefur ekki verið spurt. Ferillinn er jú að hefjast.
Af hverju var þessi leið farin:
Rekstur leikskóla er ein allra mikilvægasta þjónusta hvers sveitarfélags. Þar starfar sérhæft starfsfólk við hið mikilvæga verkefni að fylgja börnum í gegnum fyrsta skólastigið. Þótt bæði starfsmenn stjórnsýslu og bæjarfulltrúar séu allir af vilja gerðir þá eru þeir ekki með jafn víðtæka þekkingu á rekstri leikskóla og Hjallastefnan. Fólk þar á bæ er sérhæft í nákvæmlega þessum rekstri og hefur náð miklum og góðum árangri. Það sýna mælingar. Með samningum er stefnt að því að skapa okkar sérhæfðu starfsmönnum enn traustari grunn og bjóða þeim enn betri fagleg tækifæri til að gera góðan leikskóla betri.
Af hverju uppsagnir:
Trú bæjarstjórnar á að samningar við Hjallastefnuna náist er einlæg. Hún byggir á því að í kjölfar þeirra verði þjónusta við börn og foreldra betri en nú er og starfsumhverfi starfsmanna á leikskólanum einnig. Starfsmenn eiga almennt að lágmarki 3 til 4 mánuði í uppsagnarfrest, sumir enn meira. Eins og útskýrt var fyrir starfsmönnum á fundi strax í kjölfarið á ákvörðun bæjarstjórnar er óhjákvæmilegt að segja starfsmönnum upp á formlegan máta þótt að þá þegar hafi legið fyrir að öllum starfsmönnum verði boðið starf áfram við leikskólann. Enn hefur það ekki verið gert þar sem upp kom álitamál um hvernig rétt sé að standa að svo vandasömu verki. Samband íslenskra sveitarfélaga og stéttafélög starfsmanna vinna nú að niðurstöðu um hvernig best verði að því staðið. Á sama hátt er trú Hjallastefnunnar á að samningar náist eindregin. Til marks um það eru þau þegar byrjuð að skoða hvernig innleiðing geti byrjað sem fyrst og hvernig aðkoma foreldra og starfsmanna verði best tryggð.
Val um leikskóla:
Með samningum við Hjalla yrði val um leikskóla ekki þrengt. Sveitarfélagið rekur í dag tvo leikskóla. Einn í Þorlákshöfn og annan í Hveragerði í samstarfi við sveitarfélagið þar. Eins og gefur að skilja er ekki um mikið val hvað þessa tvo leikskóla varðar. Börn í Þorlákshöfn fara í Bergheima og börn í dreifbýlinu að mestu í leikskólann í Hveragerði. Með þessari ákvörðun er ekki þrengt að valinu. Uppeldi barna okkar og aðbúnaður þeirra er eitt af mikilvægustu verkefnum allra samfélaga. Sem betur fer er fólk gagnrýnið á allar ákvarðanir þar að lútandi. Ekkert er þar hafið yfir gagnrýni. Í dag er komin áratuga reynsla af Hjallastefnunni og þar með talið áherslu þeirra á að vinna með styrkleika beggja kynja. Þótt sú stefna sem Sveitarfélagið Ölfus hefur rekið á Bergheimum sé ekki sú sama og Hjallastefnunnar skyldi engin halda að hún og ýmislegt annað við reksturinn hafi ekki á tímum verið umdeilt. Í litlu samfélagi sem okkar þarf þá oft að sitja uppi með þrengri valkosti en í stærri samfélögum. Þannig var það og þannig verður það áfram þar til annar leikskóli verður byggður, sem vonandi verður fljótlega. Aðkoma Hjalla hefur þar ekki áhrif.
Kostnaður við skólafatnað:
Eitt af gildum Hjalla er að öll börn klæðast skólabúningum. Kostnaður við fatnað barna getur verið nokkur en jafnframt minnka kaup foreldra á öðrum fatnaði, en startkostnaður verður einhver. Rétt er að minna á að það er ekki sjálfgefið að foreldrar geti mætt ýmsu sem tengist skólagöngu barna þeirra. Í þeim tilvikum er sveitarfélagið með sterk úrræði í gegnum félagsþjónustu sveitarfélagsins. Slík aðkoma breytist ekki þótt svo fari að Hjallastefnan taki við rekstri leikskólans.
Leikskólagjöld og önnur þjónusta:
Með samningum við Hjalla er sveitarfélagið ekki að einkavæða leikskólann Bergheima. Reksturinn er allur áfram á hendi sveitarfélagins. Þjónustustig svo sem daglegur opnunartími, þjónustugjöld, sumarlokanir og fleira er áfram á forræði sveitarfélagsins. Á sama tíma er fjöldi barna á leikskólanum og allt annað áfram á forræði sveitarfélagsins. Allt þetta og þar með talið leikskólagjöld munu haldast óbreytt ef til kemur og er það ávallt ákvörðun sveitarfélagsins hvernig þau eru á hverjum tíma.
Faghlutfall starfsfólks:
Hvati til að ráða faglært fólk verður hinn sami og áður eða jafnvel aukinn. Hjallastefnan kappkostar almennt að ráða sem flesta faglærða. Samningar sveitarfélaga og Hjalla eru með þeim hætti að aukinn launakostnaður vegna aukins fjölda faglærðra er greiddur af sveitarfélögunum og þar með tryggður hvati til slíks. Undirrituð binda vonir við að núverandi starfsmenn leikskólans muni kjósa að vinna áfram við leikskólann ef af breytingum verður, bæði faglærðir og ófaglærðir.
Sérkennsla og stoðþjónusta:
Sú stoðþjónusta sem er í boði í dag verður að minnsta kosti sú sama. Víða hefur það þó gerst að aðgengi að stoðþjónustu hafi aukist með samningum við Hjallastefnuna. Vilji sveitarfélagsins er að tryggja ætið tækifæri til snemmtækrar íhlutunar og öflugt stoðkerfi. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á þessum mikilvægu þáttum í rekstri leikskólans og enginn hvati er til að minnka þá þjónustu. Sérkennsluþátturinn er byggður inn í samningsdrög sem byrjað er að stilla upp.
Ávinningur starfsmanna:
Sem fyrr segir er Hjallastefnan sérhæfð í rekstri leikskóla. Þar liggur áratuga reynsla sem nýtist vel í rekstri þeirra 14 leikskóla sem þau reka í dag. Þótt ástæðan fyrir vilja bæjarstjórnar til að semja við Hjallastefnuna snúi fyrst og fremst að faglega starfinu og þjónustu við börn, verður ekki hjá því horft að þau hafa nýtt sérþekkingu sína samhliða til að bæta kjör og starfumhverfi starfsmanna. Það er enda forsenda þess að annar árangur náist. Hjallastefnan hefur þannig með góðum árangri náð að hækka laun starfsmanna sinna og draga úr vinnutíma, án þess að það bitni á þjónustu við foreldra og börn, og án viðbótarkostnaði fyrir sveitarfélögin. Sem fyrr segir verður öllum núverandi starfsmönnum boðin áframhaldandi vinna við leikskólann Bergheima fari svo að samið verði við Hjallastefnuna. Við tilflutninginn hækka starfsmenn um einn launaflokk og vinnuvika þeirra, fyrir fulla vinnu, styttist um 5 klukkutíma. Vinnudagurinn styttist sem sagt um eina klukkustund. Auk þess mun starfsmönnum gefast kostur á að sinna undirbúningi heima fyrir. Því er um að ræða kjarabætur sem eru langt umfram það sem sveitarfélagið getur boðið.
Ávinningur foreldra
Við rekstur leikskóla skiptir ætíð mestu hvernig til tekst með að þjónusta börn og foreldra þeirra. Þekkt er að Hjallastefnan leggur mikla alúð á að tryggja börnum gott faglegt umhverfi þar sem áhersla er á opinn efnivið, jákvæð samskipti og að byggja upp börn sem einstaklinga, óháð kyni með ýmsum aðferðum. Þótt stefna þeirra sé í öllum tilvikum skýr þá er hverjum og einum einstaklingi mætt á hans eigin forsendum. Rekstur leikskólans er fyrir börnin og foreldrar eru sérfræðingar í sínu barni. Þá hafa dæmin sýnt að Hjalli hefur víða geta boðið foreldrum meiri sveigjanleika í vistunartíma og minni röskun á skólastarfi en víða annarstaðar.
Fylgt úr hlaði
Vilji bæjarstjórnar er skýr. Við viljum leita leiða til að ná samningum við Hjallastefnuna. Ástæða þessa og aðrar forsendur höfum við reynt að útskýra hér að ofan. Von okkar er að viljinn verði tekinn fyrir verkið þótt ljóst sé að öllum spurningum verður ekki svarað í texta sem þessum. Í samræmi við einlægan vilja okkar bæjarfulltrúa viljum við bjóða foreldrum til fundar við okkur í Versölum á mánudaginn kl. 17:00. Þar viljum við hlusta eftir skoðunum og vilja þeirra enda það mikilvægasta veganestið í áframhaldandi samtali við Hjallastefnuna. Leiðarljósið er að gera góðan leikskóla betri.
Fyrir hönd bæjarstjórnar:
Grétar Ingi Erlendsson
Jón Páll Kristófersson
Kristín Magnúsdóttir
Þrúður Sigurðardóttir
Steinar Lúðvíksson
Guðmundur Oddgeirsson