Ægismenn skoruðu fjögur mörk í góðum sigri

Ægismenn gerðu góða ferð í Garðabæinn í gærkvöld þegar liðið hafði betur gegn KFG í 3. deildinni í fótbolta. Lokatölur urðu 3-4.

Stefan Dabetic átti frábæran leik og skoraði þrennu, tvö markanna beint úr aukaspyrnu og það þriðja úr vítaspyrnu. Þá skoraði Þorkell Þráinsson fjórða markið eftir góða sókn Ægismanna.

„Gerðum okkur erfitt fyrir í leiknum með að hleypa þeim alltaf aftur inn í hann þrátt fyrir að vera betri aðilinn heilt yfir, en þeir refsuðu strax fyrir okkar mistök. Sem betur fer náðum við að landa þessu og 6 stig komin í hús eftir 2 umferðir,“ segir á Facebook-síðu Ægismanna um leikinn.

Næsti leikur Ægis er heimaleikur gegn Álftanesi á föstudaginn klukkan 20.