Þórsarar eru Icelandic Glacial-móts meistarar 2020 eftir frábæran sigur á Njarðvík í kvöld. Lokatölur voru 114-96.
Gestirnir í Njarðvík mættu sterkir til leiks og leiddu með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta. Þórsarar komu gífurlega einbeittir til leiks í öðrum leikhluta og skoruðu fyrstu 16 stig leikhlutans og komust yfir 44-35 þegar þrjár og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum. Þórsarar héldu áfram að bæta í og var staðan 64-50 í hálfleik.
Þórsarar héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og gáfu Njarðvíkingum engin færi á að komast aftur inn í leikinn og endaði leikurinn með átján stiga sigri Þórsara sem líta mjög vel út þegar örstutt er í fyrsta leik Dominos deildarinnar.
Larry Thomas og Adomas Drungilas voru frábærir í leiknum en Larry skoraði 27 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Adomas bætti við 26 stigum, tók 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Ragnar Örn setti upp þriggja stiga skotsýningu í lok þriðja leikhluta þegar hann setti niður þrjá þrista á einni og hálfri mínútu. Hann endaði með 18 stig í leiknum. Styrmir Snær átti flottan leik og var með 14 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Halldór Garðar skoraði 12 stig, Callum Lawson 11 stig, Davíð Arnar 3 stig, Emil Karel 2 og Ísak Júlíus 1 stig.