Grunnskólinn í Þorlákshöfn hreppti annað sætið í Skjálftanum 2021, hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum á Suðurlandi. Keppnin fór fram í Íþróttahúsinu í Þorlákshöfn á laugardaginn og úrslitin urðu kunngjörð í gærkvöldi.
Atriði Grunnskólans í Þorlákshöfn var algjörlega magnað en atriðið heitir „Af hverju?“ og fjallar það um kynbundið ofbeldi þar sem svörum er leitað við þeirri spurningu, hvers vegna stelpum sé stöðugt kennt að passa sig.
„Hæfileikaríkir flytjendur og hnökralaus og metnaðarfullur flutningur, skýr og mikilvægur boðskapur og greinileg ástríða fyrir viðfangsefninu fleyttu þeim í annað sætið,“ sagði í umsögn dómnefndar um atriðið.