Í tilefni 70 ára afmælis Þorlákshafnar verður Sjómannadagshelgin sérstaklega skemmtileg og viðburðarrík.
Hún hefst á laugardagsmorgun klukkan 11 þegar ný sögusýning opnar í römmunum við Selvogsbraut. Sögusýningin er nýstárleg, gamansamar myndlýsingar í bland við létta sagnfræði og hversdagssögur. Heiðurinn af þessari myndlistarsýningu eiga hjónin Ágústa Ragnarsdóttir og Þórarinn F. Gylfason. Nánar um sýninguna hér.
Klukkan 13 hefst dagskrá við bryggju, að þessu sinni án skemmtisiglingar en vegna covid er það ekki hægt þetta árið.
Á bryggjunni verður keppt í sjóboðsundi og koddaslag. Hlaupabraut og sjóbretti verða í höfninni þar sem áhugasamir svellkaldir einstaklingar geta skemmt sér og þeim sem kjósa að horfa á frá bryggjunni.
Söngkeppni barnanna verður haldin þar sem börn á öllum aldri geta látið ljós sitt skína. Nánar um það hér.
Körfuknattleiksdeild Þórs verður með hinar einu sönnu humsur til sölu og það vita allir sem hafa smakkað að maður lætur þær ekki framhjá sér fara og styður við okkar öfluga körfuboltastarf í leiðinni.
Hoppukastalar af ýmsum stærðum og gerðum verða á sínum stað og fiskar og önnur furðudýr úr sjónum verða til sýnis.
Alla helgina verða bílskúrssölur víða um bæ og blómamarkaður í Skrúðgarðinum.
Sjómannadagurinn (sunnudagur 6. júní) hefst á hefðbundinn hátt þegar messað verður í Þorlákskirkju og að þessu sinni er einnig fermingarmessa.
Dagskráin færist svo í Skrúðgarðinn og hefst á laser tag klukkan 11.30 (er í boði til kl. 13.30) og þá verður einnig blásið í hoppukastalana sem verða í boði yfir daginn.
Klukkan 12 verður kveikt upp í grillum og íbúar eru hvattir til að koma með pylsur með sér og grilla og borða saman hádegisverð undir harmonikkuleik og skemmtiatriðum.
Á sviði koma fram söngkonurnar Elísabet Davíðsdóttir og Emilía Hugrún Lárusdóttir ásamt sigurvegara söngkeppni barnanna frá því deginum áður.
Sögur verða sagðar af sjó og landi, frá fólki sem hefur búið í Þorlákshöfn og tekið þátt í sjómennsku og sjóvinnslu með einhverjum hætti.
Sjómannadagskaffi Björgunarsveitarinnar Mannbjargar verður á sínum stað, í Versölum. Vegna covid ætla þau að hafa opnunartímann lengri og hefja kaffisölu klukkan 13 og verða með heitt á könnunni til klukkan 17. Við hvetjum alla til að fá sér kaffi og kræsingar og styðja þannig við bakið á okkar frábæru björgunarsveit. Mannbjörg verður með tækin sín til sýnis fyrir utan ráðhúsið.
Á sunnudeginum verða einnig bílskúrssölur um allan bæ og blómamarkaður í Skrúðgarðinum.