Fasteignagjöld í Þorlákshöfn eru þau lægstu á Suðurlandi og vel undir landsmeðaltali skv. nýútgefinni skýrslu sem Byggðastofnun gaf út sem ber heitið „Samanburður á fasteignamati og fasteignagjöldum árið 2021“.
Í greiningu Byggðastofnunar er notast við viðmiðunareign til að hafa réttan samanburð á milli svæða. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 fermetrar að grunnfleti, 476 m3 og stærð lóðar er 808 m2. Með fasteignagjöldum er ekki einungis verið að horfa til fasteignaskattsins heldur einnig til lóðarleigu, fráveitugjalds, vatnsgjalds og sorpgjalda.
Miðað við þessar forsendur eru fasteignagjöld í Þorlákshöfn 321.000 kr. á meðan íbúar á Selfossi greiða rúmlega 38% meira eða um 444.000 kr. Meðaltalið á Suðurlandi er um 380.000 kr. og því ljóst að gjöldin í Þorlákshöfn eru töluvert lægri. Ef landsmeðaltal er skoðað þá er það 344.000 kr. eða rúmlega 7% hærra en í Þorlákshöfn.
Í samtali við Hafnarfréttir sagði Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs það vera stefnu sveitarfélagsins að vera með hófsama gjaldtöku. „Samfara hraðri fjölgun íbúa og aukinni trú á framtíð okkar góða sveitarfélags hefur fasteignaverð hækkað verulega á seinustu árum. Áhersla hefur veri á að skipuleggja heppilegar lóðir og verði stillt í hóf til að draga úr álögum á fjölskyldur. Við höfum á sama hátt lækkað álagsprósentu fasteignagjalda og dregið úr öðrum gjöldum vegna fasteigna. Í raun er hér um hluta af fjölskyldustefnu okkar að ræða. Lægri gjöld á fasteignir og húsbyggingar skila sér einfaldlega í auknum ráðstöfunartekjum fjölskylda.“ Að spurður hvort að saman geti farið að lækka gjöld og auka þjónustu segir Grétar það vel mögulegt. „Sveitarfélagið Ölfus stendur sterkt. Við kappkostum að veita ekki einungis góða þjónustu heldur einnig að fara vel með það fé sem okkur er treyst fyrir. Þessi stefna hefur gert okkur þetta mögulegt. Það væri sannarlega auðvelt hjá okkur að fara þá leið að hækka álögur á íbúum og sjálfsagt myndi það skapa okkur enn aukið framkvæmdasvigrúm. Á meðan þess er ekki þörf þá gerum við það þó ekki. Það er nú enda þannig að fólk er best til fallið sjálft að stjórna þeim verðmætum sem það skapar, þar með talið þeim launum sem það vinnur sér inn.
Hér er hægt að nálgast skýrsluna en einnig er hægt að nálgast myndræna framsetningu í mælaborði Byggðastofnunar.