Leikurinn í kvöld á risaskjá í íþróttasalnum

Það hefur vart farið framhjá nokkrum manni að körfuboltabærinn Þorlákshöfn logar nú stafnanna á milli af körfuboltaæði. Liðið okkar, Þór Þorlákshöfn, er enda í úrslitum og með 2 – 0 forskot á andstæðinga sína frá Keflavík.  Með sigri í kvöld tryggir liðið sér Íslandsmeistaratitil og þar með einstakan árangur sem eftir er tekið um land allt.

Leikir liðsins hafa verið einstök skemmtun í allan vetur og seinustu tveir leikir hreinlega listrænir. Strákarnir okkar hafa sannarlega sýnt úr hverju þeir eru gerðir og leikið við hvern sinn fingur. Íbúar í sveitarfélaginu hafa síðan tekið þátt í baráttunni með leikgleðina að vopni.  Mat leikmanna og forráðamanna liðsins er að stuðningsmenn með Græna drekann í forystu séu á við 6. manninn í liðinu.

Til að gera stuðningsmönnum mögulegt að halda gleðinni og samstöðunni áfram hefur Sveitarfélagið Ölfus í samstarfi við Körfuknattleiksdeild Þórs nú ákveðið að sýna leikinn á risaskjá í íþróttasalnum í Þorlákshöfn í kvöld.  Húsið opnar kl. 19:30.

Stuðningsmenn Þórs, njótum gleðinnar saman og styðjum okkar menn, nær og fjær.

Áfram Þór.