Foreldrafélag Grunnskólans í Þorlákshöfn stendur fyrir opnum foreldra- og samfélagsfundi miðvikudaginn 20. október í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss. Fundurinn hefst kl. 18 og stendur til 20.30 og öllum viðstöddum er boðið upp á súpu (skráning nauðsynleg, sjá link fyrir neðan).
Ætla að koma af stað foreldrarölti
Tilgangur fundarins er að koma af stað foreldrarölti sem verður skipulagt á föstudögum og laugardögum og auka meðvitund okkar allra um að við berum sameiginlega ábyrgð á velferð barnanna í þorpinu okkar. Allir íbúar í Ölfusi geta tekið þátt í foreldrarölti, einu kröfurnar eru að einstaklingar hafi kærleika að leiðarljósi í samskiptum við krakkana okkar. Svo ömmur og afar, frænkur, frændur og aðrir áhugasamir, endilega komið og verið með.
Tveir ólíkir og áhugaverðir fyrirlestrar
Við fáum tvo ólíka, áhugaverða og gagnlega fyrirlesara
Elís Kjartanson, lögregluþjónn ætlar að spjalla við okkur um hvernig foreldrar og aðrir þeir sem sinna foreldrarölti geta brugðist við í ólíkum aðstæðum ásamt því að fræða um eitt og annað í virku spjalli við viðstadda.
Aðalheiður Sigurðardóttir er fyrirlesari sem talar um eitt af því mikilvægasta í lífinu – að vera samþykktur eins og maður er. Fyrirlesturinn er með yfirskriftina: Hvernig get ég hjálpað barninu mínu?
Nánar um fyrirlestur Aðalheiðar
Með því að tvinna saman þekkingu frá taugaskynjun og heilaþroska með persónulegu ferðalagi inní eigin uppeldissögu og tilfinningar – fann Aðalheiður Sigurðardóttir réttu brautina að kærleiksríkum lausnum fyrir barnið sitt og fjölskylduna alla. Fyrirlestrinum er ætlað að veita praktísk ráð og innblástur að kærleiksríkri tengslamyndun og betri hversdagsleika.
Aðalheiður Sigurðardóttir er stofnandi verkefnis Ég er unik (www.egerunik.is) og hefur um árabil starfað sem fyrirlesari og tengslaráðgjafi fyrir foreldra og fagfólk, með sérstaka áherslu á einhverfuróf, ADHD og kvíða. Hún er jafnframt að mennta sig sem EQ-terapeut. Hún er móðir tveggja, einstakra barna sem upplifa heiminn sterkt og hefur áralanga og persónulega reynslu af margskonar áskorunum og hefur á sínu ferðalagi byggt upp sérþekkingu á tengslamyndun.
Foreldrafélagið býður upp á súpu – skráning nauðsynleg
Eins og áður sagði ætlar Foreldrafélagið að bjóða upp á súpu og því er nauðsynlegt að skrá sig á fundinn.
Hér á þessum link skránir þú þig á fundinn: https://forms.gle/ZUiVA5vQggKRqvhu6
Við hlökkum til að sjá sem flesta!
Stjórn Foreldrafélags GÍÞ