Hamar-Þór með frábæran sigur

Hamar-Þór vann flottan 90-67 sigur á Vestra í 1. deild kvenna í körfubolta þegar liðin mættust í Þorlákshöfn í kvöld.

Gestirnir voru sterkari í fyrri hálfleik en okkar konur áttu frábæran seinni hálfleik þar sem þær skoruðu 53 stig í þriðja og fjórða leikhluta. Hamar-Þór vann að lokum sannfærandi 23 stiga sigur og fyrsti sigurinn í höfn í 1. deildinni.

Astaja Tyghter var frábær í liði Hamars-Þórs þar sem hún skoraði 38 stig og tók 21 frákast. Hildur Björk Gunnsteinsdóttir var mjög góð með 13 stig og Hrafnhildur Magnúsdóttir skoraði 11 stig og gaf 7 stoðsendingar. Gígja Marín Þorsteinsdóttir skoraði einnig 11 stig og Gígja Rut Gautadóttir bætti við 9 stigum. Margrét Lilja Thorsteinson og Helga María Janusdóttir skoruðu 3 stig og Lovísa Bylgja Sverrisdóttir 2.