Ægir fær hálfa milljón fyrir góðan árangur

Á síðasta fundi bæjarráðs sveitarfélagsins Ölfuss var samþykkt að sveitarfélagið muni greiða Knattspyrnufélaginu Ægi sérstakan 500 þúsund króna styrk fyrir góðan árangur á nýafstöðnu tímabili. Ægismenn komust upp um deild í haust og hefur liðið farið úr 4. deild og upp í 2. deild á aðeins þremur árum.

Í erindi Ægis til bæjarráðs var farið var yfir rekstrarstöðu félagsins sem og þann árangur sem náðst hefur. Þar kom meðal annars fram að Covid hafi haft veruleg neikvæð áhrif á rekstur félgasins.

„Bæjarráð óskar Knattspyrnufélaginu Ægi til hamingju með frábæran árangur og samþykkir að greiða félaginu 500.000 kr. í sérstakan styrk vegna þess góða árangurs sem náðist á tímabilinu,“ segir að lokum í bókun bæjarráðs.