Undanfarna daga hafið þið verið að sprengja upp úr þurru, enginn veit fyrr en allt í einu. Mig grunar að þetta gerið þið ykkur til ánægju og yndisauka og samgleðst ég ykkur hvað það varðar. Ég samgleðst þó ekki sjálfum mér né þeim sem eru í sömu stöðu og ég. Málið er nefnilega að ég á gæludýr sem ykkar sprengingar hafa gríðarlega mikil áhrif á.

Um leið hefur það áhrif á okkur hjónin því við eyðum mörgum klukkustundum á dag í að reyna að róa dýrin og sýna þeim stuðning í aðstæðum sem þau skilja ekki.

Ég trúi því að þið mynduð ekki sprengja ef þið vissuð hvernig þessi annars pollrólegu dýr bregðast við skemmtun ykkar. Það er erfitt að lýsa því en dýr sem eru hrædd við þessar sprengingar eru oft á tíðum marga klukkutíma að ná sér niður. Þau hreinlega gráta af hræðslu, reyna að fela sig titrandi og skelfingulostin. Í hreinskilni sagt þá bíður maður eftir því að þau detti niður vegna dauð hjartaáfalls.

Ég hef svo mikinn skilning á því að ykkur þyki þetta gaman. En nú hafðið þið haft marga marga daga til að skjóta löglega upp. Ekki myndi mér detta til hugar að tuða þegar fólk er að skjóta upp á löglegum tímum ársins. En þegar það er komið langt út fyrir þann ramma þá langar mig að biðla til ykkar að hætta þessu og bíða í eitt ár.

Ef ekki þá er ég með upp á stungu. Mig grunar að þið séuð að skjóta bara upp ykkur til ánægju, ekki fyrir aðra. Ég veit að sumir kunna að hafa gaman að þessu en þar sem þið látið ekki vita fyrirfram þá missa þeir aðilar af þessari skemmtun ykkar. Fólk heyrir bara lætin en er of seint út til að njóta með ykkur. Þannig að fáir njóta fyrir utan ykkur sem eruð að skjóta.

Hvernig væri nú að þið færuð bara vel út fyrir bæin þar sem bara þið mynduð njóta og sprengingarnar væru þá bara fyrir ykkur en ekki þá sem þið þröngvið þeim upp á. Þar er líka mun minni eða engin ljósmengun svo þið ættuð að njóta þess enn betur sjálf/ir.

Þarna mynduð þið brúa bil beggja og allir glaði, þetta heitir víst að taka tillit til annara ef ég man rétt. Bara að muna að taka ruslið með heim og henda í ruslið.

Annars bara gleðilegt nýtt ár hamingjufólk.
Kjartan Antonsson, íbúi í Þorlákshöfn