Bæjaryfirvöld vinna með HSU að því að koma upp sýnatökustað í Þorlákshöfn

Samkvæmt heimildum Hafnarfrétta vinna bæjaryfirvöld nú með HSU að því að koma upp sýnatökustöð þar sem boðið verður upp á svokölluð PCR próf. Þetta staðfestir Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs. „Það er rétt við höfum verið að skoða þessi mál með HSU og verkefnið fékk aukinn byr í seglin eftir sterkan þrýsting bæjarbúa. Fulltrúar HSU sjá einnig tækifæri í að dreifa þjónustunni og draga þannig úr því mikla álagi sem því fylgir að vera með alla sýnatöku á sama bletti. Þannig gætum við hér í senn aukið þjónustu við bæjarbúa og létt álaginu á sýnatökunni á Selfossi.“

Eins og Hafnarfréttir greindu nýverið frá þá fólst sá þrýstingur í undirskriftarsöfnun, sem Ása Berglind Hjálmarsdóttir hrundi af stað, þar sem á sjötta hundað manns skoðuðu á HSU að bjóða upp á PCR sýnatöku í Þorlákshöfn.

PCR prófin þykja öruggust þeirra prófa sem nú verið að nota. Þau mæla veiruna sjálfa, það er að segja hvort viðkomandi sé með veiruna í líkamanum. Þau taka lengri tíma en mótefnavakapróf þar sem sýni eru unnin á rannsóknarstofu. Eftir því sem liðið hefur á faraldurinn hafa yfirburðir þessara prófa verið að sýna sig betur og heilbrigðisyfirvöld í auknu mæli horft til þeirra. Samhliða hefur álagið á sýnatökustaði aukist mikið.

Grétar Ingi er bjartsýnn á að þetta geti gengið hratt eftir. „Við ætlum að reyna að hefja þessa þjónustu núna í vikunni. Þau hjá HSU eru vel undirbúin og fátt sem standa ætti í vegi fyrir þessu. Við erum sérstaklega að horfa í að nýta Versali til sýnatökunnar enda þar gott aðgengi fyrir þá sem eiga erfitt með gang og næg bílastæði austan megin fyrir okkur hin.“

Fréttir hefur verið uppfærð*