Hátt í 600 manns skora á HSU

Hátt í 600 manns skrifuðu undir undirskriftalista þar sem skorað er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands að bjóða upp á PCR sýnatökur á heilsugæslunni í Þorlákshöfn.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir stóð fyrir undirskriftasöfnuninni sem stóð yfir í rúmlega tvo sólarhringa. Hún sendi listann á forstjóra HSU í morgun.

Í samtali við Sunnlenska.is segir Ása Berglind að vel væri hægt að fara sömu leið og á Hvolsvelli. „Það eru fordæmi fyrir því að HSU bjóði upp á sýnatökur með aðstoð Securitas á Hvolsvelli og Þorlákshafnarbúar sjá ómögulega afhverju er ekki hægt að bjóða upp á slíkt fyrirkomulag í Þorlákshöfn. Ef heilsugæslustöðin rúmar þetta ekki þá eru húsnæði á lausu sem gætu vel hýst sýnatökur,“

Þá segir hún að börn muni þurfa að fara í sýnatökur við minnsta tilefni. „Það er ekki hægt að bjóða íbúum í Þorlákshöfn lengur upp á það að keyra á Selfoss eða til Reykjavíkur til að nýta þessa þjónustu. Það eru fjölmörg dæmi um að sýnatökuferðin á Selfoss hafi tekið þrjár til fjórar klukkustundir, sem er alls ekki boðlegt og sér í lagi þegar börn eru í bílnum, svo ekki sé talað um umhverfislegu sjónarmiðin í þessu samhengi,“ segir Ása Berglind í samtali við Sunnlenska.