Þorlákshöfn hefur á síðustu árum þróast yfir í að verða mikill íþróttabær og er ég stoltur af þeim mikla árangri sem náðst hefur á síðustu árum. Einnig hafa íþróttamenn í dreifbýlinu látið til sín taka og þá ekki síst í hestasporti. Þessi árangur hefur eflt samfélagið okkar og styrkir stöðu þess bæði inn á við og út á við.
Það er samt ekki sjálfgefið að börn og ungmenni finni sig í hefðbundnum íþróttum og því er mikilvægt að huga að fjöbreyttu íþrótta- æskulýðs- og menningarstarfi. Sjálfur var ég fastagestur í félagsmiðstöðinni Svítunni og fannst fátt skemmtilegra en að mæta þar í lok dags. Held að ég hafi varla misst úr kvöldi öll þau ár sem ég gat mætt í félagsmiðstöðina og því kannski ekki skrítið að ég starfi svo þar í dag.
Nýlega kom ég svo að stofnun Rafíþróttadeildar Þórs sem hefur verið mér mikið hjartans mál og tel ég nauðsynlegt að sveitarfélagið haldi áfram að styðja við deildina líkt og annað íþrótta- og æskulýðsstarf í sveitarfélaginu. Það hefur verið mikil hjálpí þessari vinnu að finna stuðning bæði frá starfsfólki sveitarfélagsins og íbúum.
Einnig þarf að huga að börnum sem eru með mismunandi stuðningsþarfir og við á D-listanum ætlum okkur að leiða saman foreldra barna með mismunandi stuðningsþarfir, tómstundafélög og fulltrúa sveitarfélagsins til að tryggja framboð á hentugum námskeiðum í íþróttum og tómstundum fyrir þessa einstaklinga.
Ég ákvað að gefa kost á mér á lista fyrir þessar kosningar vegna áhuga á þessu góða samfélagi og taldi ég líka mikilvægt að einhver af pólskum uppruna yrði í framboði. Í sveitarfélagi þar sem um 10% íbúa eru pólskir tel ég mikilvægt að þessi fjölbreytileiki í samfélaginu endurspeglist að einhverju leyti á framboðslistum. Ég veit að það er hægt að segja að það vanti ýmsa hópa á framboðslistana en að mínu mati er nauðsynlegt að einhver af pólskum uppruna bjóði sig fram í sveitarstjórnarkosningum. Vonandi munu svo fleiri stíga upp í kjölfarið í komandi kosningum. Ég valdi D-listann vegna þess góða árangurs sem hann hefur náð á seinustu árum og vegna þess að ég hef trú á því góða fólki sem kemur að framboðinu.
Ég vona að þið treystið okkur á D-listanum til að halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið seinustu ár og setjið X við D þann 14. maí
Oskar Rybinski
Frambjóðandi í 12. sæti D-listans