Látum verkin tala

„Vegsemd og virðing“ er eitthvað sem að mér dettur helst í hug er ég hugsa um málefni eldri borgara.  Ég var alin upp við það að bera virðingu fyrir eldra fólki og finnst mér það góður siður.

Íbúðir fyrir aldraða voru byggðar árið 1998 og upp frá því var komið á heimaþjónustu í sveitarfélaginu og alla tíð síðan hefur þjónustan aukist ár frá ári.

Allt frá árinu 2007 voru tvískiptar vaktir í eldhúsi á 9-unni frá kl. 08 til 19 alla virka daga og var þá kvöldmatur í boði fyrir íbúa hússins ásamt morgunmat og svo auðvitað hádegismatur. Um helgar og rauða daga var húsið opið frá kl. 08 til 13, þá var morgunmatur og hádegismatur og alltaf heitt á könnunni fyrir þá sem vildu koma og kíkja í blöðin eða hitta annað fólk yfir kaffibolla.

Árið 2013 var dagdvölin flutt í íbúð á gangi og rýmum var fjölgað um tvö en þá voru 8 dagdvalarrými í allt. Einnig var sett á kvöld- og helgarþjónusta þetta ár. Árið 2015 var byrjað að elda á 9-unni og var lagður mikill metnaður í að elda frá grunni og baka allt brauð og kökur á staðnum. Á dögunum gengu framboðin í hús með sína stefnulista sem var skemmtilegt og upplýsandi, þá tjáði mér frambjóðandi frá D lista að stefnan væri sú að setja á laggirnar eldhús sem myndi þjóna öllum stofnunum í sveitarfélaginu og yrði sendur út matur þaðan til allra stofnana sveitarfélagsins og þykir mér það miður. Væntingar og þarfir ólíkra aldurshópa fara ekki saman og því ekkert sem mælir með slíku fyrirkomulagi.  

Í nóvember 2017 var sett upp Careon skráningarkerfi fyrir heimaþjónustu og var sveitarfélagið með þeim fyrstu til að taka það í notkun. Um er að ræða heimaþjónustukerfi sem er notað til tímaskráningar og þjónustustýringar. Með þessari tækni er öll framkvæmd heimaþjónustu við eldri borgara markvissari.

Fésbókarsíða var stofnuð á vegum Félags eldri borgara í Ölfusi (F.E.B.Ö.) árið 2016 og var hún mikið notuð til að auglýsa viðburði á vegum félagsins og starfsemi 9-unnar en þessi síða hefur ekki verið í notkun síðan í ásbyrjun 2020. Á sama tíma var stofnuð heimasíða fyrir félagið, siung.is og þar inni eru ýmsar upplýsingar og myndir af öflugu starfi félagsins.

Þarfagreining á þjónustuþörf var tilbúin

Árið 2018 var lögð lokahönd á margra mánaða þarfagreiningu á þjónustuþörf í málefnum eldri borgara í Ölfusi og var þessi þarfagreining unnin af vinnuhópi sem samanstóð af fulltrúum úr F.E.B.Ö., Höfn hollvinafélagi og fulltrúa frá bæjarstjórn. Ákveðið var að byggja við 9-una í einum áfanga tveggja hæða hús með tíu 34 fm. íbúðum og þjónusturýmum á neðri hæð. Þar áttu að vera dagdvöl, baðaðstaða, þvottahús, íþróttaaðstaða fyrir sjúkraþjálfara og fleira, eldhús og hleðsluherbergi fyrir rafmagnsbíl 9-unnar og rafskutlur íbúa. Með þessari byggingu hefði verið komið hentugt húsnæði sem nýst hefði getað til reksturs hjúkrunarheimilis og því meiri líkur en nú á að ríkið hefði samþykkt að taka þátt í slíkum rekstri í Þorlákshöfn. Niðurstöðum þessarar þarfagreiningar vinnuhópsins var hins vegar hent út af borðinu strax í upphafi þessa kjörtímabils því miður.

Forstöðumanneskja þjónustuhúss aldraðra var í 100% stöðu til margra ára. Í starfslýsingu forstöðumanneskju þjónustuhúss aldraðra hefur falist dagleg stjórnun félagslegrar heimaþjónustu, dagdvalar, mötuneytis og aðstoð við skipulag á viðburðum í húsinu í samstarfi við félag eldri borgara. Einnig hefur forstöðumanneskja borið ábyrgð á viðhaldi á húsnæði 9-unnar.

Árið 2019 var starf forstöðumanneskju þjónustuhúss aldraðra lagt niður og auglýst var starf deildarstjóra. Þjónustuhús aldraðra er nú opið frá kl. 08 til 16 virka daga og kl. 08 til 13 um helgar. Fólk hefur ekki fengið heimaþjónustu eins og lög gera ráð fyrir vegna manneklu og dagdvölinni hefur ítrekað verið lokað á hádegi af sömu ástæðu. Ekki hefur verið auglýst laust starf á 9-unni í ár eða meira og hvergi hef ég séð í fundargerð að ákveðið hafi verið að skerða þjónustu við aldraða og finnst mér það undarlegt ef þeir fulltrúar sem kosnir hafa verið til þjónustu við íbúa í síðustu sveitarstjórnarkosningum hafa ekki gert athugasemdir við þessa skerðingu hjá starfsfólki sveitarfélagsins.

Senn líður að kosningum og það gleður mig að sjá að auglýst hafa verið afleysingarstörf á 9-unni fyrir sumarið.

Við treystum á ykkar stuðning

Það sem að framan er sagt er ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að ráða, nú þegar, forstöðumanneskju þjónustuhúss aldraðra í Ölfusi í 100% starf, sem ber ábyrgð á lögbundinni þjónustu í málaflokki aldraðra sem sveitarfélaginu ber að sinna. Í framhaldinu ætlum við að koma á velferðarteymi í samstarfi við færustu ráðgjafa sem sinna mun þjónustu við aldraða. Framfarasinnar treysta sér til að takast á við þá ábyrgð sem fylgir því að reka góða þjónustu fyrir eldri borgarana okkar. Við treystum á ykkar stuðning í komandi kosningum þann 14. maí, setjið X við B og við munum láta verkin tala.

Sigrún Theodórsdóttir, 8.sæti á lista Framfarasinna í Ölfusi XB