Sterkur sigur Ægis í fyrsta leik

Ægismenn unnu góðan sigur gegn Magna í fyrsta leik 2. deildar karla í fótbolta á Dalvík í gær. Strákarnir sýndu baráttu og dugnað allan leikinn og skópu sigurinn á erfiðum útivelli, gríðarlega mikilvægt að byrja tímabilið á sigri.

Ægismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og komust loksins yfir eftir um 40 mínútur þegar Ágúst Karel kom boltanum á Milos Djordjevic sem gerði vel og skoraði í fjærhornið.

Í seinni hálfleik var ekki alveg sami kraftur í liðinu, leikurinn í járnum og sótt til skiptis, leikurinn frekar opinn. Eftir um 80 mínútur fá Magnamenn vítaspyrnu þegar boltinn fer í hönd Dabe af stuttu færi, Ivaylo Yanachkov gerði sér þó lítið fyrir og varði spyrnuna.

Ægismenn lokuðu leiknum af miklu öryggi og sigldu heim stigunum þremur.

Næsti leikur á föstudaginn á heimavelli þegar Víkingur frá Ólafsvík mætir í Höfnina, allir á völlinn.