Vinátta – Virðing – Velgengni

Á mínum vinnustað vinnum við eftir þremur grunngildum: Vinátta – Virðing – Velgengni. Þessi grunngildi eiga vel við í öllum samskiptum og við úrlausn allra verkefna, í skólastarfi og í samfélaginu. Þessi gildi eru mér ofarlega í huga nú í aðdraganda kosninga. Þátttaka í sveitarstjórnarmálum á ekki að standa í vegi fyrir því að fólk virði hvert annað, sé vingjarnlegt, skilji sjónarmið þó ólík séu og gæti að sér í umræðu um menn og málefni. Ég gaf kost á mér til þátttöku vegna áhuga á samfélaginu. Ég valdi D-listann vegna þess árangurs sem hann hefur náð og vegna þess að ég hef mikla trú á því fólki sem kemur að framboðinu. Eftir þeirri ákvörðun sé ég ekki.  

Mig langar að hvetja framboðin, frambjóðendur og íbúa með sterkar skoðanir til að vanda orðræðuna og reyna eftir fremsta megni að bera virðingu hvert fyrir öðru. Það á ekki að vera í lagi að segja hvað sem er þó að það séu kosningar, hvorki á netinu eða úti í bæ. Virðum hvort annað og munum að allir þeir sem bjóða sig fram til þessara starfa hafa það að markmiði að bæta samfélagið okkar allra.  

Við megum ekki fórna vináttunni og virðingunni fyrir baráttumál í pólitík. Við skulum ekki slíta vinskap vegna kosninga, við skulum ekki hætta að heilsa nágrannanum þó það séu kosningar. Við ættum ekki að munnhöggvast við fólk á förnum vegi vegna kosninganna. Tökum samtalið, ræðum yfirvegað og af kurteisi hvert við annað og tökum höndum saman í vináttu og af virðingu og þá er velgengnin vís. Hjálpumst að við að gera Ölfus að enn betri stað til að búa á. 

 
Erla Sif Markúsdóttir 
Grunnskólakennari og frambjóðandi í 4. sæti D-listans.