Það var líf og fjör í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í vikunni þegar skólinn breyttist í fríríkið Þorpið dagana 23.-25. maí.
Þorpið er samfélag þar sem börn og ungmenni sjá um alla verðmætaframleiðslu, stjórna hagkerfinu og láta hjól atvinnulífsins snúast áfram. Þorpið á sinn eigin gjaldmiðil sem heitir Þollari.
Ánægja leyndi sér ekki þegar aðstandendur Þorpsins opnuðu fríríkið á miðvikudaginn fyrir gesti og gangandi. Mikil vinna hafði farið fram við undirbúning og uppskáru nemendur sannarlega árangur erfiðis síns. „Gestir voru ósparir á hrósið enda ríkti andi sköpunar og gleði í húsinu þegar nemendur sýndu og seldu afrakstur undangenginna daga,“ segir á heimasíðu Grunnskólans í Þorlákshöfn.
Í Þorpinu var til að mynda hægt að njóta leikhúsupplifunar, kaupa skartgripi, listaverk, plöntur, fara í leiktækjasal og nytjamarkað, spila minute to win it þrautir, gæða sér á gómsætum veitingum á kaffihúsinu eða kaupa bakkelsi úr bakaríinu til að taka með sér heim.
Allur ágóði Þorpsins rennur til Úkraínu í gegnum starf Rauða krossins. Hér að neðan má sjá skemmtilegar myndir úr fríríkinu.