Hið árlega minningarmót í golfi verður haldið á Þorláksvelli sunnudaginn 16. ágúst nk.
Mótið er haldið til minningar um Gunnar Jón Guðmundsson sem lést af slysförum 1. apríl 2001, aðeins 16. ára að aldri. Hann stundaði margvíslegar íþróttir af miklu kappi, meðal annars golf þar sem hann þótti ákaflega efnilegur. Hann var fyrirmynd allra, bæði í leik og starfi.
Mótið hefst kl. 9:00 og leikfyrirkomulag verður Texas Scramble með forgjöf. Leiknar verða 18 holur og ræst verður út samtímis á öllum teigum.
Vegleg verðlaun eru í boði fyrir efstu þrjú sætin. Einnig verða nándarverðlaun á öllum par 3 brautum, verðlaun fyrir lengsta teighöggið á 17. braut og að auki verða verðlaun dregin úr skorkortum.
Maður hefði haldið að þetta væri nóg en til viðbótar verður skellt í grillveislu í mótslok.
Skráning fer fram á www.golf.is eða með tölvupósti í gummibaldursson@gmail.com fyrir kl. 20:00 laugardaginn 15. ágúst. Mótsgjald er einungis 5.000 kr.