Nú styttist óðum í hina hræðilegu Þollóweenviku. Hátíðin hefst á mánudaginn kemur, 24. október með Hræðilegu skrautsmiðjunni kl. 16:00 í grunnskólanum.
Sama dag verður Draugagarðurinn opnaður í skrúðgarðinum kl. 18:30. Garðurinn verður opinn alla vikuna svo allir geta komið þegar þeim hentar. Í draugagarðinum er myndabingó og fá börnin bingóspjaldið í skólanum eða leikskólanum. Markmiðið er að finna þá hluti sem sjást á bingóspjaldinu og eru á víð og dreif um draugagarðinn. Gott að taka með sér vasaljós. Bingóspjaldið verður einnig aðgengilegt á viðburði Draugagarðsins á Facebook.
Þriðjudaginn 25. október kl. 18:00 verður viðburðurinn Grafir og bein. Þessi viðburður er hugsað fyrir þessi yngstu.
Komið með vasaljós og leitið að beinum í Skrúðgarðinum og komið þeim fyrir í réttri gröf. Mamma og pabbi eru að sjálfsögðu með líka!
Á þriðjudagskvöldinu verður Skelfileg sundstund kl. 19:30. Hræðilega ónotaleg sundstund þar sem ýmislegt ógnvekjandi leynist víða. Komið en ekki láta ykkur bregða ef þið finnið eitthvað misspennandi í pottinum.
Miðvikudaginn 26. október verður miðilsfundur í Versölum. Skemmtilega hræðileg skyggnislýsing með Valgerði Bachmann miðli og Jóni Lúðvíks miðli. Dyrnar opna 18.30 með kaffisölu og spjalli. Kl. 19:55 er öllum smalað inn og skellt í lás. Miðaverð 2500 kr. Posi verður á staðnum. Sæti fyrir allt að 100 manns.
Föstudaginn 28. október verða skelfilegar furðuverur á ferð og flugi frá morgni og fram á kvöld. Allir krakkar mæta í búningum í grunn- og leikskóla og aðrir starfsmenn í fyrirtækjum í Þorlákshöfn eru líka hvattir til að klæða sig upp! Furðuverur ganga í SKRÁÐ hús á milli kl. 17-20 föstudagskvöldið 28. október. Listi yfir heimilisföng verður settur inn á viðburðinn á Facebook fimmtudagskvöldið 27. október og einnig hér á Hafnarfréttum. Allt sælgæti þarf að vera í umbúðum. Skráning heimila sem vilja taka á móti furðuverum er hér á þessum link: https://docs.google.com/…/1FAIpQLSdu24ypN15…/viewform…
Skammdegið er komið
Myrkrið ræður ríkjum
Það er reimt í bænum
Hræðilegir hlutir eiga sér stað
Þorir þú að takast á við draugaloftið?
Þú getur komið til að sjá með eigin augum, ef þú þorir! Draugahúsið verður í gamla frystihúsi Meitilsins (Frostfiski) og hugsað fyrir fullorðna en 14 ára og eldri eru velkomin. Draugahúsið er opið frá kl. 19:00-23:00 þann 28.október. Það kostar 1000 kr. inn. Látið ekki þennan einstaka gjörning framhjá ykkur fara, EF ÞIÐ ÞORIÐ!!
Nornaþingið þar sem kynngimagnaður kraftur kraumar í pottunum verður svo haldið laugardaginn 29. október í Versölum.
Valkyrjur í Þorlákshöfn og vinkonur eru hvattar til að sameinast og mynda seiðmagnaðan nornahring þar sem galdrarnir, göróttir drykkir, álagasöngvar og dulmagnaðir dansar teyma þær inn í myrkrið og dulúðina!
Dagskráin verður sirka svona:
– Fordrykkur
– Pálínuboð (allar koma með eitthvað á veisluborðið)
– Pub Quiz
– Sigga Kling
– Blush kynning og sölubás
– Guðrún Árný með singalong
– Daníel Haukur með karaoke stuð fram í nóttina
Miðasala verður á Kaffiskjóðunni. Miðaverð er 5500 kr. í búning og 6500 kr. ekki í búning. Allar með eigin drykki – enginn bar!
Fleiri viðburðir verða um allan bæ þessa vikuna og um að gera að fylgjast vel með á Facebooksíðu Þollóween. Nú er kominn tími til að skreyta!