Þjóðhátíðardeginum var fagnað um allt land í dag og var Þorlákshöfn engin undantekning á því.
Mikill kuldi og rigning settu svip sinn á hátíðarhöldin í dag.
Hátíðarhöldin byrjuðu á skrúðgöngu frá grunnskólanum, þar sem Lúðrasveit Þorlákshafnar spilaði af sinni alkunnu snilld.
Bæjarstjóri Ölfuss, Gunnsteinn Ómarsson, fór með kröftuga ræðu þar sem hann m.a. minnti á að einstaklingar samfélagsins þyrftu að standa saman til að gera það að sterkari heild.
Bryndís Ósk Valdimarsdóttir hélt lítið ávarp þar sem hún m.a. ráðlagði fólki að láta drauma sína rætast.
Það féll í skaut Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur að túlka hina virðulegu fjallkonu og stóð hún sig með stakri prýði er hún fór með ljóðið Ísland er land þitt, eftir Margréti Jónsdóttur.
Unga kynslóðin fékk svo sannarlega sinn skerf af hátíðarhöldunum í dag. Þeir félagar Gunni og Felix sáu um að skemmta krökkunum með hressum lögum og látbragði og til að mynda skellti Gunni sér í svanskjól í anda söngkonunar Bjarkar Guðmundsdóttur við mikla kátínu viðstaddra.
Síðasta atriði dagsins var fært inn í anddyri Ráðhússins vegna rigningar. Það voru vinkonurnar Anna Margrét Káradóttir og Ása Berglind Hjálmarsdóttir sem slógu síðasta tón dagsins með nokkrum vel völdnum slögurum.
[nggallery id=4]