Jónas og lúðró endurtaka leikinn á Borgarfirði eystri – miðasala hafin

jonasogludroEftir stórfenglega útgáfutónleika í Þorlákshöfn á síðasta ári hafa Jónas Sigurðsson og Lúðrasveit Þorlákshafnar ákveðið að halda stórtónleika í Fjarðarborg á Borgarfirði eystri. Tónleikarnir verða á fimmtudeginum fyrir Bræðsluna í félagsheimilinu Fjarðarborg 25. júlí og hefjast tónleikarnir klukkan tíu.

Einvala lið listamanna munu koma fram með Jónasi og lúðrasveitinni á tónleikunum en þau eru borgfirski englakórinn, Stefán Örn Gunnlaugsson á hljómborð, Ómar Guðjónsson á gítar, Ingi Björn Ingason á bassa, Arnar Gíslason á trommur, Rósa Guðrún Sveinsdóttir á Saxafón,  Valdimar Guðmundsson á básúnu og Eiríkur Rafn Stefánsson á trompet.

Það er líklegt að aldrei hafi annar eins fjöldi komið saman fram í einu á sviðinu í Fjarðarborg og má gera ráð fyrir að hér verði á ferðinni einstakur viðburður og upplifun fyrir öll skilningarvit.

Miðasala á tónleikana hófst klukkan 10 í morgun á midi.is og væri ráðlegt að panta sér miða tímanlega til að missa ekki af þessari snilld.

Hér má sjá myndband frá tónleikunum í Þorlákshöfn í október á síðasta ári. Sjón er sögu ríkari.