-íbúar ráða
Það gengur vel í Sveitarfélaginu Ölfusi. Ár eftir ár fjölgar þeim sem veðja á Sveitarfélagið okkar allra sem framtíðarheimili. Íbúum fjölgar, fjárhagslegur rekstur er traustur, þjónustan vex og íbúar eru ánægðir. Þetta er sú staða sem við viljum verja og samstaða íbúa er lykilatriði. Ekkert er líklegra til að skaða samfélagið en vantraust og vanstillt viðbrögð.
Eðlilegur uggur
Eitt er þó verkefnið sem veldur íbúum öðru fremur eðlilega ugg. Þar vísum við til áætlana Heidelberg. Í fyrirætlunum fyrirtækisins er stefnt að námuvinnslu í Þrengslunum, flutning á efni til verksmiðju, áframvinnslu þar og síðan flutning á afurðinni erlendis. Um er að ræða verkefni sem mun skv. áætlun fyrirtækisins draga stórlega úr loftslagsáhrifum byggingaframkvæmda. Þá mun það skapa tugi starfa og verulegar tekjur sem nýtast til samfélagslegra verkefna.
Við deilum áhyggjum
Bæjarfulltrúar D-lista deila áhyggjum með þorra íbúa. Þeir óttast helst sjónræn áhrif, flutning efnis eftir almenna þjóðvegakerfinu og truflun frá daglegri starfsemi þar sem fyrirhugað er að staðsetja verksmiðjuna innan þéttbýlisins. Þessum áhyggjum hefur ítrekað verið komið til fyrirtækisins og það m.a. hvatt til að skoða aðrar staðsetningar svo sem vestan við Þorlákshöfn, eftir atvikum innan grænna iðngarða sem þar eru fyrirhugaðir, á svæði sem væri betur heppilegt til svo umfangsmikils reksturs.
Niðurstaðan verður tekin af íbúunum sjálfum
Til að taka af allan vafa um að þetta verkefni, sem er fyrirhugað nánast í hjarta bæjarins, verði ekki að veruleika nema í sátt við íbúa var strax tekin ákvörðun um að verkefnið færi í íbúakosningu ef fyrirtækið tekur ákvörðun um að fara í framkvæmdina hér innan þéttbýlisins. Það er því óþarfi að karpa pólitískt um þetta mál, það eru íbúar sjálfir sem fara með ákvörðunarvaldið.
Unnið út frá ábendingum á íbúafundi og einróma samþykktum bæjarstjórnar
Í ljósi þessarar stöðu hefur fyrirtækið Heidelberg nú haldið áfram skoðun á málinu. Þar er unnið fyrst og fremst út frá ábendingum sem fram komu á íbúafundi sem og þeim forsendum sem bæjarstjórn hefur samþykkt einróma (7-0). Eitt af því sem er nú skoðað er að staðsetja verksmiðjuna utan þéttbýlisins. Eins og búast mátti við hefur Skipulagsstofnun gert kröfu um að verksmiðjan fari í umhverfismat. Er það í takt við þær stífu kröfur sem bæjarstjórn hefur gert hvað varðar staðsetningu hennar innan þéttbýlis og ekkert athugavert við þá niðurstöðu.
Styrkir til samfélagslegra verkefna eru jákvæðir
Ekki er hægt að láta hjá líða í þessari stuttu grein að nefna styrki fyrirtækja til óhagnaðardrifinna samfélagsverkefna hér í okkar góða bæjarfélagi. Af ástæðum sem ekki verða tíundaðar hér hafa þeir verið gerðir tortryggilegir og orð fallið sem skaða samfélagið. Undirrituð hafa seinustu ár lagt hart að fyrirtækjum að hafa samfélagslega aðkomu að verkefnum hér. Sú áhersla og markviss jákvæð samskipti við bæði íbúa og fyrirtæki hefur skilað því að starfsemi margra félaga hefur eflst til muna. Við skorum á fyrirtæki og einstaklinga að standa með sjálboðaliðum í þeirra mikilvæga starfi en gera ekki störf þeirra tortryggileg í pólitískum tilgangi.
Fylgt úr hlaði
Hvað varðar áætlanir Heidelberg um mölunarverksmiðju þá liggur fyrir að ekkert hefur verið ákveðið annað en að það verður ekki af framkvæmdum við mölunarverksmiðju innan þéttbýlis nema að undangenginni atkvæðagreiðslu. Forðumst gífuryrði og leiðum málið til lykta á forsendum íbúanna sjálfra.
Gestur Þór Kristjánsson
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir
Grétar Ingi Erlendsson
Erla Sif Markúsdóttir