Lilja Margrét Sigurðardóttir opnaði sýningu í Galleríinu undir stiganum síðastliðinn fimmtudag. Sýningin ber heitið Ó/ró.
Hafnarfréttir tóku listamanninn tali. Hver er Lilja Margrét Sigurðardóttir?
,,Ég er 25 ára og uppalin í Þorlákshöfn. Ég er lífefna- og sameindalíffræðingur sem hefur brennandi áhuga á list. Ég er í 100% starfi við gæðastjórnun á líftæknilyfjum og eyði öllum mínum frítíma í listinni og að sjálfsögðu með vinum og fjölskyldu.“
Hvenær kviknaði myndlistaráhuginn?
,,Myndlistaráhuginn hefur einhvern veginn alltaf verið til staðar, er svolítið í ættinni mætti segja, mamma og systir mín eru einnig með þessa listrænu hlið, einnig er amma mikil föndurkona. Ég teiknaði alltaf með vinkonum mínum þegar ég var yngri en á efsta stigi í grunnskóla teiknaði ég lítið, var ekki fyrr en í 10. bekk sem ég byrjaði aftur að teikna mikið eftir að ég lenti í myndlistahópnum í Þorpinu í Grunnskóla Þorlákshafnar. Teiknaði hins vegar ekki mjög reglulega fyrr en í byrjun 2020. Þá fór ég að teikna meira fyrir alvöru og teikna núna nokkrum sinnum í viku.“
Hefurðu lært eitthvað í myndlist?
,,Ég er sjálflærð, hef farið á eitt teikninámskeið síðan í myndlist í 7. bekk í grunnskóla annars hef ég lært allt bara á netinu og með mikilli æfingu.“
Hver er sagan á bak við myndirnar?
,,Ég vildi fanga ákveðna tilfinningu og ró. Ég byrjaði að teikna myndirnar fyrir sýninguna árið 2021. Þá var ég að teikna myndir af fólki sem ég þekki ekki en svo til þess að ná að fanga tilfinningarnar almennilega náði ég að plata vinkonur mínar í smá myndatöku í byrjun 2022. Í myndatökunni voru Ásgerður og Sesselía Dan módelin sem hún Berglind Dan farðaði. Sesselía tók myndir af Ásgerði og ég af Sesselíu. Ég teiknaði svo eftir myndunum sem við tókum. Sýningin hefði því ekki verið sú sama hefði það ekki verið fyrir Ásgerði, Sesselíu og Berglindi. Er virkilega þakklát fyrir þær. – Sýningin heitir Ó/ró þar sem ró táknar fólkið í myndunum og óró er allt annað í heiminum. Snýst svolítið um að finna fyrir ró í þessum órólega heimi. Eitt af aðalverkunum (hendurnar) á sýningunni sýnir einmitt að finna ró í óró eða að það sé ljós í myrkrinu. Einfaldur en fallegur boðskapur. –„
,,Ég ákvað mjög snemma í ferlinu fyrir þessa sýningu að ég skyldi fyrst og fremst teikna þessar myndir fyrir mig en ekki fyrir einhvern annan. Hefði ég verið að reyna teikna það sem einhver annar myndi vilja að ég teiknaði væru myndirnar allt öðruvísi. Það er auðvelt að detta í það hugarástand að hugsa að enginn muni vilja kaupa myndirnar en hinsvegar fannst mér mikilvægara að gera myndir sem ég yrði stolt af og ég vildi gera og ef einhver er hrifin af þeim líka væri það bara auka bónus. Einnig er ég með vinnu svo ég teikna einungis fyrir ánægju en ekki fyrir peninginn eins klisjulega og það hljómar.“
Eitthvað fleira sem þú vilt segja varðandi sýninguna og það sem þú ert að fást við?
,,Sýningin verður sýnd til 28. apríl og rennur allur ágóði af sölunni til Píeta samtakanna sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Mér finnst þetta gríðarlega mikilvæg starfsemi og hef ég og margir í kringum mig nýtt okkur aðstoð þeirra sem aðstandendur. – Það eru ennþá nokkur original verk til sölu ásamt eftirprentum, hægt er að fá eftirprentin afhent strax og original verkin í lok sýningar. – Framundan er bara að búa til meiri list, prófa nýja hluti og jafnvel taka diplómu í listinni. – Ef fólk hefur áhuga að fylgjast með eða hafa samband að þá er ég með instagram og facebook reikning: liljamargretsart og einnig er ég með vefsíðu þar sem fólk getur skoðað myndirnar sem eru á sýningunni.“