Fyrirtækið Skinney-Þinganes hf. á Höfn í Hornafirði hefur keypt öll hlutabréf í Auðbjörgu hf. í Þorlákshöfn. Samkeppniseftirlitið á eftir að samþykkja kaupin en samkomulag um kaupin hefur verið undirritað.
Í tilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að undanfarin 25 ár hafi Auðbjörg keypt skip og aflaheimildir til að styrkja rekstur fyrirtækisins. „Þrátt fyrir kaup veiðiheimilda hefur fyrirtækinu ekki tekist að halda í við skerðingu á þeim veiðiheimildum er fyrirtækið ræður yfir. Það er mat eigenda að rétt sé og tímabært að koma fyrirtækinu í hendur traustra aðila sem hafa það að markmiði að halda áfram starfsemi fyrirtækisins í Þorlákshöfn,“ segir í tilkynningunni.
Ef kaupin ganga í gegn hjá Samkeppniseftirlitinu mun starfsemin í Þorlákshöfn þó halda áfram. Skinney-Þinganes verður þá með starfsemi sína á Höfn og í Þorlákshöfn.