Á morgun, fimmtudag, stefna tökumenn á að koma til Þorlákshafnar og taka myndir af öflugu mannlífi í Þorlákshöfn. Þeir munu mæta með dróna sem mun fljúga yfir ákveðin svæði og taka myndir en efnið verður notað í kynningu á Þorlákshöfn og Ölfusinu.
„Okkur vantar fólk um allan bæ, fólk á bryggjunni, krakkar í körfubolta, fólk að skokka á berginu, í fótbolta, sjálfboðaliða sem stökkva í sjóinn eða dorga á bryggjunni, foreldrar úti að labba með barnavagna, íbúar að hengja út þvott, hlaup í fjörunni og einhverjir að leik í skrúðgarðinum,“ segir í tilkynningu frá menningarfulltrúa Ölfuss.
Þá segir að verið sé að setja saman tímaplan um hvenær þeir taka upp á hvaða stað en það getur þó breyst þegar þeir mæta á svæðið. Líklegast verður þó byrjað á bryggjunni um sjöleitið á morgun.
Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til í að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem gengur út á það að kynna okkar frábæra bæjarfélag út á við.