Dagur íslenskrar náttúru í Ölfusi

lauf_gardur01Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn á morgun, miðvikudaginn 16. september. Í Sveitarfélaginu Ölfusi verða ýmsir viðburðir af því tilefni.

Börn og starfsfólk úr leikskólanum Bergheimum munu fara út á Nesið í berjamó, skoða náttúruna og hlaupa frjálst um. Allir nemendur grunnskólans ásamt kennurum munu fara út og njóta náttúrunnar í grennd við skólann.

Umhverfisverðlaun Ölfuss verða afhent kl. 17 í skrúðgarðinum ef veður leyfir, annars í Versölum. Þar verða veitt verðlaun fyrir fallegustu garðana í sveitarfélaginu, annars vegar í þéttbýli og hins vegar í dreifbýli.

Þá verða afhjúpuð ný skilti á gatnamótum Oddabrautar og Skálholtsbrautar um kl. 17:30. Á nýju skiltunum eru upplýsingar um fyrstu götuheitin í Þorlákshöfn, þegar göturnar voru einfaldlega nefndar bókstöfum í stafrófsröð.