Það fór ekki fram hjá neinum í Þorlákshöfn að Verslunin Ós var að hætta rekstri eftir heil 50 starfsár og í dag var einnig seinasti opnunardagur verslunarinnar. Að því tilefni var efnt til sannkallaðrar stórveislu.
Þetta byrjaði allt sem lítil hugmynd hjá Jónasi Sigurðssyni að gera eitthvað smá í tilefni þess að Franklín og Haddý væru að hætta rekstri. Hann setti það inn á facebook hóp og um leið stækkaði viðburðurinn. Allir vildu hjálpa til við að gera daginn sem eftirminnilegastan enda hefur Verslunin skipað stóran sess í lífi allra Þorlákshafnarbúa.
Á staðnum var svið þar sem Jónas Sigurðsson og lúðrasveitin tóku lagið. Simmi Kalla rifjaði upp gamlar sögur, leikfélagið var með leikþátt, Kiwanismenn grilluðu pylsur fyrir gesti og endaði þetta að sjálfsögðu með flugeldasýningu.
Samkennd og þakklæti einkenndi þessa kvöldstund og munum við bæjarbúa sakna þess að geta ekki verslað við Franklín og Haddý.
Við hjá Hafnarfréttum tókum fjöldan allan af myndum og myndböndum sem við munum birta á næstu dögum.