Unglingaráð Félagsmiðstöðvarinnar Svítunnar lagði land undir fót um seinustu helgi og skellti sér á Landsmót Samfés sem var haldið á Akureyri. Frá Svítunni fóru Þórey Katla Brynjarsdóttir, Þröstur Ægir Þorsteinsson, Annabella Arndal Erlingsdóttir og Haukur Castaldo Jóhannesson.
Fjölbreyttar smiðjur voru í boði á landsmótinu í ár þar sem fulltrúar Svítunnar lærðu margt sem þau munu nýta í starfi Svítunnar. Voru þau öll sammála um að það hefði verið mjög gagnlegt og skemmtilegt á landsmótinu.
„Þetta var osom helgi“ sagði einn fulltrúi í ungmennaráði þegar hann var spurður út í það hvernig hafi verið á landsmótinu.
Í ár réðst ungmennaráð Samfés í stærsta jafningjafræðsluverkefni sem haldið hefur verið hér á landi. Fulltrúar í ráðinu voru búnir að útbúa námskeið um „sexting“ til þess að fræða alla þá sem komu á landsmótið. „Sexting“ er að senda klúr eða kynferðisleg skilaboð til einhvers sem vill eða vill jafnvel ekki fá þau. Á námskeiðinu var þetta skoðað út frá sjónarhornum unglinga, foreldra, starfsmanna og fleira.
Unglingaráð Svítunnar mun nýta sér þessa þekkingu til að halda svipaða jafningjafræðslu um „sexting“ fyrir ungmenni í sveitarfélaginu.