Grétar ekkert með á þessu ári

gretar01Grétar Ingi Erlendsson mun að öllum líkindum ekki geta spilað með Þórsurum á þessu ári vegna ökklameiðsla sem hafa verið að hrjá hann. En í lok mánaðarins mun hann fara í aðgerð vegna meiðslanna. Þetta kemur fram á vefsíðunni Karfan.is

„Þetta var að koma í ljós núna að þegar ég missteig mig á móti Tindastól í úrslitakeppninni í fyrra braut ég eitthvað bein í ökklanum. þetta bein er laust og strýkst upp við sinar á þessu svæði og er að valda bólgum og verkjum og hef ég því ekkert getað beitt mér hvorki á landsliðsæfingum í sumar né núna á undirbúningstímabilinu. Ég fer í aðgerð núna 26. október og er að vona að ég verði klár í slaginn í lok janúar,“ sagði Grétar í samtali við Karfan.is í dag.

Samkvæmt Karfan.is þá fékk Grétar þessi tíðindi í gær og sagði þau áfall: „Ég er ennþá bara að vinna úr þessu, gríðarlegt áfall eftir gengi síðasta tímabils.“

Í umfjöllun Sport.is um Þórs liðið var Grétar ásamt Ragga Nat talinn vera X-factorinn í liðinu í vetur en síðasta tímabil var líklegast hans besta á ferlinum.

Það er því augljóslega mikill missir fyrir liðið að hafa  ekki Grétar en á seinasta tímabili var hann að meðaltali með 15,2 stig, 6,6 fráköst og tæpa 17 punkta í leik.