Þorlákshafnardrengurinn Jón Guðni Fjóluson sem spilað hefur með Sundsvall seinustu ár hefur skrifað undir samning við Svíþjóðameistarana í Norrköping og er samningurinn til þriggja ára.
Bæjarblaðið Sundsvalls tidning sem er einskonar Hafnarfréttir í Sundsvall náðu tali af Jóni Guðna sem er spenntur fyrir þessari nýju áskorun.
„Mér fannst mig vanta nýja áskorun á þessum tímapunkti. Það voru nokkur önnur félög sem sýndu mér áhuga og ég gat valið úr nokkrum tilboðum. Norrköping eru ríkjandi meistarar og spila þar af leiðandi í Evrópukeppni að ári og það heillaði mig,“ sagði Jón Guðni um vistaskiptin við Sundsvalls tidning.
„Mér fannst Norrköping spila skemmtilegan fótbolta á síðastliðnu keppnistímabili og mér þótti þeir besta liðið sem við spiluðum við. Ég hlakka til að takast á við verkefni næsta tímabils. Mig langar að sjálfsögðu að vera hluti af leikmannahópi Íslands á EM næsta sumar, en til þess að það geti orðið að verueika þarf ég að standa mig í stykkinu hjá félagsliðinu á næsta tímabili,“ sagði Jón Guðni enn fremur í viðtali við blaðið.
Hér að neðan má sjá blaðamannafundinn þar sem Jón Guðni er kynntur til leiks sem nýr leikmaður Norrköping.