Nú fer árið að renna sitt skeið á enda og nýtt tekur við, margt hefur gerst hér í sveitarfélaginu á árinu, það hefur verið gaman að sjá flott fólk gera okkur stolt með stórgóðum árangri í Útsvari, bæði liðin sem hafa keppt fyrir okkar hönd hafa verið okkur til sóma og tek ég hatt minn ofan fyrir þeim.
Á lista sem tímaritið Vísbending gefur út um „draumasveitarfélagið“ er ánægjulegt að sjá að Sveitarfélagið Ölfus hækkar sig á milli ára og fer úr 11. sæti og upp í 9. sæti. Flott sveitarfélag sem á skilið að vera á topp tíu slíkum lista.
Allir flokkar vinna saman í bæjarstjórn og samskiptin mikil þar á milli, þar eiga allir heiður skilið fyrir að vinna saman að hagsmunum íbúa sveitarfélagsins. Það eru ekki allir alltaf sammála, en það er eðli lýðræðisins, það eru skiptar skoðanir á milli fólks og gott er að þær séu ræddar og niðurstaða fengin með samvinnu fremur en átökum. Ef að einhverstaðar liggja einhver leiðindi þá er rétti tímin núna þegar árinu er að ljúka að setja það til hliðar og saman munum við horfa björtum augum áfram.
Það má segja að veturinn sé mættur á svæðið. Blásið hefur eilítið í desember og gott er að vita til þess að við eigum góða að, Björgunarsveitin Mannbjörg er okkur til halds og trausts og eru þau að vinna gott starf. Á fundi bæjarstjórnar í lok nóvember var samþykkt að styrkja sveitina um 750 þúsund til að klára nýjan björgunarbát sem deildin fjárfesti í. Ég hvet fólk til að halda áfram að styrkja starf sveitarinnar, enda er þetta starf sem þið njótið góðs af.
Njótið aðventunnar, munið eftir því að hlutir og matur skiptir ekki öllu, það sem skiptir virkilega máli eru þið sjálf og ástvinir ykkar, njótið þess að eyða tíma með þeim, annað er bara bónus. Ekki gleyma ykkur í hringiðu stressins. Þetta á að vera mánuður gleðinnar, gerið hann að ykkar og munið; þó að úti sé myrkur og dagar séu stuttir, þá er núna tíminn sem jólaljósin lýsa upp myrkrið og þegar jólunum lýkur þá er dagurinn þegar farinn að lengjast og sumarið verður handan við hornið.
Ég vil að lokum óska ykkur öllum gleðilegra jóla, ég þakka ykkur fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða og hlakka til að hefja það næsta. Megi hið nýja ár verða ykkur öllum frábært og fullt af hamingju.
Með jólakveðju
Ólafur Hannesson
Höfundur er formaður Sjálfstæðisfélagsins Ægis.