57% minni matarsóun í grunnskólanum

skolinn_motuneyti00Matarsóun hefur minnkað um 57% í Grunnskólanum í Þorlákshöfn frá því í marsmánuði á síðasta skólaári en þetta kemur fram á heimasíðu skólans.

Töluvert hefur breyst í skipulagi mötuneytisins en fyrir nokkru var Rafn Ingólfsson ráðinn til að sjá um mötuneytið en áður var tilbúinn matur keyptur frá SS. Til viðbótar þá geta nemendur nú sjálfir skammtað sér á diskinn og hefur sú ákvörðun að leyfa það leitt af sér mun minni matarsóun.

Í tilefni af þessum góða árangri ákváðu skólastjórnendur að bjóða upp á ístertu frá Kjörís í eftirrétt í gær. Erum við hjá Hafnarfréttum nokkuð vissir um að matarsóun hafi verið nálægt 0% þann daginn.