Jólatréssala Ölvers

Ölver tré mynd Kiwanis JólÁrið 1974 var Kiwanisklúbburinn Ölver stofnaður og það sama ár seldi klúbburinn jólatré í fyrsta sinn. Síðan þá hafa Kiwanismenn staðið fyrir árlegri jólatrésölu og hefur allur ágóði sölunnar alltaf runnið óskiptur í styrktarsjóð Ölvers. Þetta er mikilvægur liður í fjármögnun sjóðsins en þess má geta að allt fé sem safnast í sjóðinn er úthlutað í formi styrkja til félagasamtaka og/eða einstaklinga. Það er stefna Ölvers að styrkja einkum fólk og félagastarfsemi í sveitarfélaginu og hafa flest, ef ekki öll, félög í Þorlákshöfn notið góðs af, ásamt fjölmörgum fjölskyldum og einstaklingum sem þurft hafa á aðstoð að halda.

Sveitungar hafa ávallt tekið vel í að kaupa jólatré af okkur Kiwanismönnum því flestir gera sér grein fyrir því að greiðslan fyrir trén hjá okkur skilar sér aftur út í samfélagið í formi styrkja og nýtist okkur öllum á þann hátt. Ekki skemmir fyrir að upphafsmenn Ölvers náðu einstaklega góðum samningum við Grýlu strax við stofnun klúbbsins og hefur hún á hverju ári sent nokkra af sínum vösku sveinum til að hjálpa okkur að koma trjánum til fjölskyldna í bænum, hefur það jafnan vakið mikla kátínu barna jafnt sem fullorðinna.

Það verður ánægjulegt að sjá ykkur niðri við Kiwanishús þegar þið komið að velja ykkur tré fyrir jólin og er það von okkar að bæjarbúar hjálpi okkur að styrkja góð málefni og taki vel í söluna nú sem fyrr.