XO – svo miklu meira en gott koníak!

Síðla vetrar var mér boðið að taka þátt í framboði framfarasinna og félagshyggjufólks hér í Ölfusi vegna bæjarstjórnarkosninganna í vor. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar mér var kynnt hvaða forsendur lægju að baki fyrirhuguðu framboði. Ég hef nú síðustu vikur unnið að stefnuskrá listans ásamt félögum mínum og verð með hverjum deginum sem líður sannfærðari um að O-listinn býður fram það sem er sveitarfélaginu fyrir bestu á komandi kjörtímabili.

Auðvitað er það svo að öll framboð hafa sama markmið að leiðarljósi þegar stefnan er mörkuð fyrir kosningar. Allir vilja gera vel. Allir vilja skapa gott samfélag og stuðla að vellíðan og öryggi íbúanna. En hvað á þá að kjósa? Mig langar að nefna nokkra punkta sem gætu hjálpað þér að ákveða hvernig þú verð atkvæði þínu, kæri kjósandi í Ölfusi.

  • O-listinn teflir fram nokkrum sitjandi bæjarfulltrúum sem öðlast hafa dýrmæta reynslu á kjörtímabilinu og sækjast eftir umboði til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið.
  • O-listinn teflir einnig fram nýju, kraftmiklu fólki með fjölbreyttan bakgrunn og ferskar hugmyndir.
  • O-listinn teflir fram fólki sem allt er tilbúið til setu í nefndum sveitarfélagsins, sumu með áralanga reynslu af nefndarstörfum, og öðru sem brennur fyrir ákveðin mál og langar að leggja lið.
  • O-listinn setur fram skýra sýn á framtíðina í öllum þeim málaflokkum sem sveitarfélagið hefur með að gera. Hugmyndir, tillögur og markmið byggja á vel ígrunduðum umræðum og raunhæfum lausnum sem miða allar að áframhaldandi ábyrgri fjármálastjórn.

Ég hvet ykkur sveitungar mínir í Ölfusi til að kynna ykkur vel það sem framboð framfarasinna og félagshyggjufólks hefur fram að færa í komandi kosningum. Glæsilegur bæklingur með vandaðri stefnuskrá framboðsins hefur nú verið borinn inn á öll heimili í sveitarfélaginu og þar er einnig kynning á frambjóðendum O-listans og þeirra hugðarefnum. Þá er Facebook- síða framboðsins með daglegar uppfærslur og kynningar og greinar eftir frambjóðendur hafa birst og munu birtast í sunnlenskum fréttamiðlum fram að kosningum. Nýtið kosningaréttinn þann 26. maí!

Sigþrúður Harðardóttir
11. sæti O-listans í Sveitarfélaginu Ölfusi