Leikreglurnar – seinni hluti

Í síðustu viku birtust nokkrar línur frá mér Eiriki Vigni frambjóðanda í 7. sæti D-listans í Ölfusi. Því miður var ekki send endanleg grein í birtingu og voru því viðmiðunarfjárhæðir sem nefndar voru í upphaflegri grein ekki réttar. Beðist er afsökunar á því en einhugur er hjá okkur frambjóðendum á D-listanum að bæði í kosningabaráttunni, sem og í starfi okkar eftir kosningar, að viðurkenna það fullum fetum ef okkur verður á.

Eftir sem áður stendur greinin fyrir sínu og raunar mætti hafa mun lengri skrif um vinnubrögð núverandi meirihluta í málaflokknum. Það er staðreynd að í bæði eldri lögum um innkaup hins opinbera og nýrri lögum frá 2016 kemur fram sú meginregla að innkaup yfir tilteknum viðmiðunarfjárhæðum skuli bjóða út, og byggir sú meginregla á því að slík framkvæmd er almennt til þess fallin að tryggja betri verð, jafnræði, hagkvæmni og meira gegnsæi í stjórnsýslunni.

Í fyrrnefndri grein voru settar fram ákveðnar spurningar um verklag núverandi bæjarstjórnar í þessum málaflokki og rétt er að árétta að við sjáum ekki að núverandi bæjarstjórn hafi við innkaup á verkum eða þjónustu brotið lög. Hins vegar er ekki vafi á því að núverandi bæjarstjórn hefur hagnýtt sér seinkaða gildistöku á nýjum lögum um innkaup, og vegna þess að bæjarstjórnin hér hefur ekki sett sveitarfélaginu reglur um innkaup, þá hefur sveitarfélagið hér ekki þurft að bjóða út kaup á vörum, þjónustu eða verkum nema ef um verulegar háar fjárhæðir væri að ræða. Einhverra hluta vegna hefur sveitarfélagið ekki sett sér sérstakar innkaupareglur, öfugt við flest sveitarfélög á landinu, og alla okkar næstu nágranna.

Sveitarfélaginu Ölfus ber líkt og öðrum sveitarfélögum að auglýsa með formlegum og tilgreindum hætti innkaup yfir innlendu viðmiðunum sem eru 15,5 milljónir vegna kaupa á vörum og þjónustu og 49 milljónir í verklegum framkvæmdum. Í aðdraganda kosninganna höfum við lagt okkur nokkuð eftir því að finna opinberar auglýsingar sveitarfélagsins um framkvæmdir sem nú eru nýlega hafnar í sveitarfélaginu og eru yfir þessum viðmiðunarfjárhæðunum, en gengið illa að finna þær. Þá hafa bókanir um tiltekin verk í fundargerðum oft verið mjög óljósar um innkaupaaðferð á verkinu og litlar upplýsingar almennt um ferlið við innkaupin. Það hefur því í reynd verið mjög erfitt að reyna að átta sig á því hvaða aðferðafræði hefur verið beitt við innkaup á líðandi kjörtímabili. Það er auðvitað ekki gegnsæ né skýr stjórnsýsla.

Við á D-listanum í Ölfusi teljum óforsvaranlegt að nýta smugur í löggjöfinni til þess að komast hjá lagaskyldu sem hefur það að markmiði að tryggja hagkvæmni í innkaupum, jafnræði á markaði og gegnsæi í stjórnsýslunni. Það má nefnilega stundum gera betur en bara að uppfylla lágmarkskröfur laganna. Við teljum að í því skyni sé nauðsynlegt að sveitarfélagið setji sjálft innkaupareglur og hafi þar að leiðarljósi hagkvæmni, jafnræði og gegnsæi öllum íbúum til heilla.

Eiríkur Vignir
skipar 7. sæti D-listans í Ölfusi