Fjársjóðurinn í fólkinu!

Nú 26. maí næstkomandi eru sveitarstjórnarkosningar. Vikurnar fram að kosningum í litlum samfélögum eins og okkar geta oft verið ansi skrítnar og samskipti fólks eiga það til að breytast. Fólk flokkar hvort annað í lið, þrætir um hluti sem það myndi á öðrum tíma aldrei ræða, hætta að heilsast og jafnvel alveg að tala saman. Ekki eru þó allir í þessum gír og þetta tímabil gengur yfir og komast vonandi flestir ósárir frá því.

En er ekki gott mál að íbúar hafi skoðanir á málefnum í sínu sveitarfélagi? Sýnir það ekki bara að fólki er ekki sama?

Hér í Ölfusi búum við í sveitarfélagi sem hefur allt að bera til að vera einn besti, ef ekki besti búsetukostur á landinu. Við erum vel staðsett. Við höfum frábæran skóla og leikskóla með frábæru starfsfólki. Allar aðstæður til íþrótta, tómstunda og útiveru eru þannig að fólk sem heimsækir okkur verður orðlaust. Við höfum náttúruperlur við hvert fótmál sem bjóða upp á óendanleg tækifæri. Í atvinnumálum eru endalausir möguleikar og með höfnina sem flaggskipið eigum við að stuðla að framúrskarandi umhverfi fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum, jafnt í dreifbýli sem og þéttbýli.

En stóri fjársjóðurinn í Ölfusi er fólkið sem hér býr. Fólkið sem hefur svo miklar skoðanir á því sem gert er og hvernig staðið er að hlutunum. Fólkinu sem er ekki sama. Fólk sem kom og byggði þetta samfélag upp af dugnaði og bjartsýni. Það fólk á skilið að búa á heimaslóðum með góða þjónustu við góðar aðstæður síðustu æviárin sín. Fólkinu sem er að byggja þetta samfélag upp af dugnaði og bjartsýni og á skilið framúrskarandi þjónustu og aðstæður fyrir sig og sína. Fólkið hér er stóra málið.

Hér á D-listanum í Ölfusi er hópur af flottu fólki sem býður fram krafta sína næstu 4 árin til að stýra þessu sveitarfélagi. Ég leyfi mér að segja að allir bjóða sig fram til að gera sitt besta. Gera það sem það telur best fyrir samfélagið okkar. Fyrir fólkið okkar hér í Ölfusi og gera lífið betra.

Gestur Þór Kristjánsson
1. sæti D-listans í Ölfusi