Á fimmtudaginn, 16. júní, verða mikil tímamót í sögu Lúðrasveitar Þorlákshafnar en þá mun Róbert Darling stjórnandi hennar frá upphafi sveifla sprotanum í síðasta sinn. Efnisskráin verður bráðhress og skemmtileg og ætti að höfða til flestra þar sem heimsfrægt popp og rokk er í aðalhlutverki. Torfi Áskelsson verður kynnir. Anna Margrét Káradóttir mun syngja nokkur lög auk óvæntra uppákoma.
Ekki er þó einungis um burtfarartónleika Róberts að ræða heldur eru þetta einnig styrktartónleikar fyrir Svanhildi Helgadóttur, flautuleikara lúðrasveitarinnar til margra ára, en hún glímir við krabbamein.
Lúðrasveitin hefur einnig stofnað söfnunarreikning henni til handa.
Númerið er 0150-05-60205 og kennitala 460893-2409
Sköpuð verður hugguleg stemning í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn þar sem seldar verða léttar veitingar. Aðgangseyrir er 2.000 kr. og opnar húsið kl. 19:00. Forsala miða er í Kompunni Hárgreiðslustofu og einnig verður selt við inngang.