bergheimar-1Umsóknum um leikskólapláss á Leikskólanum Bergheimum í Þorlákshöfn hefur fjölgað mikið seinustu mánuði og til að leysa vandan er stefnt að því að deild með elsta árgangi leikskólans fari yfir í grunnskólann. Þetta kemur fram í fundargerð fræðslunefndar frá því 10. júní sl.

Fyrirliggjandi er að biðlistar munu verða eftir rýmum fyrir tveggja ára börn nú að loknu sumarfríi og hefur leikskólastjóri, ásamt Skólaþjónustu Árnesþings, skoðað hvaða möguleikar eru í stöðunni til að fyrirbyggja að biðlistar myndist nú í sumar og á næsta skólaári.

Niðurstaða þeirrar vinnu er að bæta við deild fyrir elsta árganginn sem staðsett yrði í grunnskólanum. Um væri að ræða tímabundna lausn í eitt skólaár á meðan elsti hluti leikskólans verður endurbættur. Með þessu verður unnt að bjóða öllum börnum af biðlistanum leikskólavist í haust, líka þeim sem verða tveggja ára eftir áramótin næstu. Fræðslunefnd hefur samþykkt að fara þessa leið og leggur áherslu á að þetta verði unnið í góðri samvinnu stjórnenda, kennara beggja skólastiga og bæjarstjórnar.

Slíkt fyrirkomulag er vel þekkt í Þorlákshöfn en frá 2008-2014 var elsti árgangurinn með aðsetur í grunnskólanum. Markmiðið með því að færa deildina yfir á þeim tíma var að auka samfellu, samstarf og samskipti milli skólastiganna bæði hjá nemendum og kennurum.

bergheimar01Mjög skiptar skoðanir voru á því að hafa elsta árgang leikskólans í grunnskólanum hjá bæði foreldrum og starfsfólki. Á fundi bæjarstjórnar þann 12. desember 2013 var því ákveðið að færa elsta stigið aftur yfir í leikskólann.

Á sama fundi var einnig samþykkt að færa aldursinntökuviðmiðið „niður í 18 mánuði úr 24 mánaða aldri í upphafi skólaárs 2015-2016 og er það gert til að koma til móts við þarfir barna og fjölskyldna þeirra. Vegna þessara breytinga verði elsti hluti leikskólans forhannaður með breytingaþörf að leiðarljósi árið 2014 og er áætlaður kostnaður 2,5 m.kr. Breytingar verði svo framkvæmdar árið 2015 og er heildarkostnaður fullnaðar hönnunar og framkvæmdar á því ári áætlaður 22,5 m.kr.“

Eins og fram hefur komið þá er aldursviðmiðið þó ennþá 24 mánuðir og ekki er búið að fara í framkvæmdir á elsta hluta leikskólans sem bæjarstjórn ákvað árið 2013 og því þarf að grípa til þess að færa elsta stigið tímabundið aftur yfir í grunnskólann.